FRAMTÍÐIN Í LÆKNINGUM

FRAMTÍÐIN Í LÆKNINGUM

Hefurðu nokkurn tímann velt fyrir þér hvort og hvernig lækningar eigi eftir að breytast í framtíðinni? Verður almennt farið að líta á líkamann sem eina heild, þar sem allir þættir í starfsemi hans eru meira og minna tengdir?

Eða verður haldið áfram að stunda  „partalækningar“ eins og nú eru stundaðar, þar sem ekki er litið á tengsl líffæra við hvort annað og við önnur kerfi líkamans, heldur einungis á líffærið sjálft?

TÍÐNILÆKNINGAR

Tímaritið Scientific American kallaði tíðnilækningar „lækningaleið framtíðarinnar“, en á forsíðu blaðsins í mars árið 2015 var sagt að lífrafeindatækni (tíðnilækningar með örstraumi) gæti „slökkt á“ liðagigt, sykursýki og jafnvel krabbameinum.

Dr. Keith Scott-Mumby kallaði tíðnilækningar „Star Trek lækningar“ í bók sinni Virtual Medicine, sem kom út árið 1999, en hann talar einnig um að tíðnilækningar séu mesta bylting í lækningum síðan farið var að nota svæfingar og sýklalyf komu á markað.

Í Þýskalandi, sem hefur alltaf verið mjög framarlega í heildrænum lækningum, hafa tíðnilækningatæki verið notuð samhliða almennum vestrænum lækningum í marga áratugi. Þessi tíðnitæki hjálpa oft læknum að greina hvað er í raun að sjúklingnum og hvaða leiðrétting þarf að eiga sér stað til að koma á jafnvægi og heilun á ný.

TÍÐNILÆKNINGAR EKKI NÝJAR AF NÁLINNI

Tíðnir eða rafstraumar til lækninga eiga sér langa sögu, en með aukinni tækni hafa tækin sem notuð eru við tíðnilækningar tekið mikilli framþróun – en hér koma nokkur dæmi úr sögunni:

2750-2500 F Kr. Steinristur frá Fimmta Faraóveldinu í Egyptalandi sýna Torpedo (rafmagnaðan fisk sem er eins og rafmagnaður áll) notaðan til að meðhöndla sársauka. Fiskurinn sendi frá sér öflugt rafstuð og Egyptar settu fiskinn á aum svæði til að vinna á sársauka.

1600 Elísabet I – Læknar hennar gera tilraun með að nota rafstuð við lækningar.

18. öldin – Miklar framfarir verða í tíðni- eða rafboðslækningum þegar menn fara að læra að framleiða og nota rafmagn.

1751-1900 í Bandaríkjunum, Þýskalandi, Ítalíu, Englandi og víðar gera menn eins og Edison (1892) og Tesla (1891) uppgötvanir á leiðum til að nota tíðnir við ýmsar lækningar.

Í Englandi og í Ástralíu voru hermenn sem komu til baka úr fyrri heimstyrjöldinni meðhöndlaðir með raflækningum og 1923 veita Ástralir þeim sem þær lækningar stunda fulla viðurkenningu.

1950 byrja Rússar (og hafa haldið áfram) að nota raförvun til að hjálpa íþróttamönnum að byggja upp vöðva og auka krafta sína.

Í Bandaríkjunum, Ástralíu og víðar heldur þróun tíðnilækninga áfram frá árunum 1955 til dagsins í dag.

NÚTÍMINN OG FRAMTÍÐIN

Nýjasta þróunin í tíðnilækningum byggist á tækjum til einstaklingsnotkunar, sem eru minni en snjallsímar og stýrt er með Appi úr símum til að meðhöndla ýmis konar ójafnvægi í líkamanum.

Farið er að kenna tíðnilækningar við læknaháskóla í Bandaríkjunum, sem algerlega nýja lækningaleið. Læknar íþróttaliða eins og ruðningsliðanna í Bandaríkjunum nota tíðnilækningar þegar leikmenn slasast. Þeir segja að náist að meðhöndla meiðsl innan fjögurra tíma frá því að þau verða, styttist bataferlið um áttatíu prósent.

Dr. Keith Scott-Mumby segir að meðal annars sé hægt að nota tíðnilækningartæki til að meðhöndla sýkingar, sár, sársauka, mígrenihöfuðverki og að þau slái á bólgur og endurvekji ýmsa starfsemi í líkamanum.

Það eru því spennandi tímar framundan – og það í persónulegum lækningum.

Heimildir: Fréttabréf Dr. Scott-Mumby  – History of Bioelectronic Medicine

Mynd: CanStockPhoto / Feverpitched