FÖRUM HÆGAR Í GEGNUM LÍFIÐ

FÖRUM HÆGAR Í GEGNUM LÍFIÐ

Flestum okkar hefur verið kennt það í gegnum lífið að mikilvægt sé að drífa hlutina af og það eins fljótt og hægt er. Við lærum snemma að það að gera er mikilvægara en það að vera – og að ef við ætlum að fá sem mest út úr lífinu, þurfum við að hafa hraðann á í öllu.

Samt er það nú svo að í öllum hraðanum er eins og okkur skorti lífsfyllingu og að við missum tengslin við vini og vandamenn í kringum okkur. Vinnan og hraðinn yfirtaka allt og við missum sjónar á þeirri einföldu fegurð sem felst í öllu því sem í kringum okkur er.

MIKILVÆGI HINS EINFALDA

Þegar vil lærum að fara hægar í gegnum lífið komumst við á ný að raun um mikilvægi hinna einföldu þátta í því. Máltíðir geta orðið að rólegri stund, þar sem við fögnum þeirri næringu sem við erum að setja í líkamann. Verk vel unnin geta veitt okkur á ný djúpa ánægju, sama hvers kyns þau eru. Með því að gefa okkur tíma til að vera forvitin, njóta augnabliksins, meta undur heimsins eða sitja og hugsa eða tengjast öðrum, erum við svo sannarlega að næra okkur sjálf.

Það að við hægjum aðeins á okkur, þarf hvorki að þýða að við verðum óvirk né afkastalítil eða löt. Með því að hægja aðeins á hraðanum getum við hins vegar betur valið hvernig við verjum tímanum og veitt okkur sjálfum meiri tíma til að njóta þess sem við erum að gera.

ENDURSKIPULAGNING

Með því að fara hægar, getum við undirbúið okkur betur undir verkefni sem krefjast hraða, til dæmis með því að vera í fullkomnu jafnvægi áður en við hefjumst handa. Þá ganga verkin oft hraðar, því undirbúningur er ekki síður mikilvægur en að vinna verkið sjálft.

Í rólegheitum getum við farið í gegnum þau verkefni sem fyrir liggja, endurskipulagt okkur og smátt og smátt losað okkur út úr þeim sem hvorki henta okkur né lífsmáta okkar lengur. Um leið og við hægjum á okkur, komumst við að raun um að nýjar venjur veita okkur tækifæri til að fylla tíma okkar með uppbyggjandi verkefnum og meiri nærveru með þeim sem okkur þykir vænst um.

NÆRUM OKKUR SJÁLF

Við getum til dæmis tekið okkur lengri tíma á morgnana til að hugleiða eða gera æfingar og vinna svo af heilum hug að verkefnum dagsins, án þess að vera með pressu á okkur. Við getum líka nært okkur sjálf á einhvern hátt daglega, bara með því einu að stoppa annað slagið í 1-3 minútur til að líta út um gluggann og dást að því sem við augum blasir eða til að líta inn á við og þakka fyrir að við skulum vera heilbrigð og með góða hreyfigetu.

Það felst ákveðin áskorun í því að falla ekki í þá freistingu að halda sig í hraðanum, sífellt með símann við eyrað eða í höndunum og með allt of langan verkefnalista. Með því að fara aðeins hægar í gegnum lífið getum við hins vegar notið hvers verkefnis fyrir sig betur og gefið okkur tíma til að opna hjarta okkar og huga til vitundar um það hve dýrmætt hvert augnablik er og hvað við erum heppin að fá að njóta þess.

Mynd: CanStockPhoto / endotune

Ef þér fannst þessi grein áhugaverð, deildu henni þá endilega með öðrum´