FIMM FÆÐUTEGUNDIR SEM DRAGA ÚR BÓLGUM

MEGINEFNI GREINARINNAR

  • Rannsóknir hafa staðfest að bólgur í líkamanum eru undirrót fjölmargra sjúkdóma í líkamanum. Í væntanlegari bók minni HREINN LÍFSSTÍLL fjalla ég um bólgusjúkdóma og náttúrulegar leiðir til að draga úr bólgum.
  • Fæðan getur verið besta lækningarlyf okkar ef við borðum réttu fæðuna.
  • Fimm fæðutegundir sem draga úr bólgum eru túrmerik, bláber, engifer, granatepli og grænt te.

Fylgstu með mér daglega á Facebook eða skráðu þig á póstlistann til að fá tilboð og fréttir vikulega.


FIMM FÆÐUTEGUNDIR SEM DRAGA ÚR BÓLGUM

Rannsóknir hafa staðfest að bólgur í líkamanum eru undirrót fjölmargra sjúkdóma í líkamanum. Nútíma neylsuvenjur, byggðar á mikilli notkun á fullunninni matvöru með ýmsum aukaefnum, ræktunaraðferðir matvæla með eiturefnum og of mikil kyrrseta hefur allt áhrif á aukningu bólgusjúkdóma hjá fólki. Um þetta fjalla ég einmitt í væntanlegri bók minni HREINN LÍFSSTÍLL, sem kemur á markað í kringum 20. ágúst. Fram að þeim tíma er hægt að kaupa hana í forsölu með 25% afslætti.

En meðan beðið er eftir ráðum og upplýsingum úr henni, er hægt að nýta sér nokkrar góðar fæðutegundir til að draga úr bólgum í líkamanum, því fæðan er svo sannarlega lækningarlyf okkar ef við nýtum hana rétt.

TÚRMERIK
Hundruðir rannsókna hafa sýnt fram að túrmerik dregur úr bólgum í líkamanum, en það býr yfir mörgum öðrum heilsubætandi áhrifum. Skömmu eftir að ég og Gulli heitinn fluttum að Hellnum lásum við grein um hina mörgu frábæru eiginleika túrmeriks. Þar sem ég var betri en Gulli í því að mála og smíða og mikið var að gera í þeirri deildinni, tók hann að sér eldamennskuna og í framhaldi af því voru flestir réttir, hvort sem það voru súpur, grænmetis- eða kjötréttir mjög gulir á litinn, því hann setti túrmerik í nánast allt. Ég missti því smá áhuga á því eftir þessa ofnotkun, svo það liðu nokkur ár þar til ég fór að nota það aftur. Hægt er að nota túrmerik t.d. frá Himneskri hollustu í duftformi út í morgunbúst eða við alla matseld. Einnig fást hylki með túrmeriki frá NOW, sem tryggja að jafnt magn af þessu eðalkryddi sé tekið inn daglega.

Túrmerik hefur líka reynst þeim sem eru með offituvandamál vel. Það dregur úr bólguviðbrögðum og oxandi áhrifum vegna streitu í líkamanum, sem stuðlar að því að fólk á auðveldar með að losna við aukakílóin.

BLÁBER
Þau eru næst á listanum og það þarf ekki að hvetja mig til að nota þau. Ég fæ mér á hverjum degi vænan skammt af bláberjum í morgunbústið og hlakka mikið til þess að nú styttist í berjatínslutímann, því fátt er betra en íslensk bláber. Það eru ekki margar fæðutegundir sem eru bláar á litinn, en jurtanæringarefnin í dökka litnum hafa andoxandi áhrif og draga úr bólgum í líkamanum.

Auk bólgueyðandi áhrifanna koma bláber líka jafnvægi á blóðsykurinn og geta verið mikilvæg fæðutegund, þegar verið er að koma jafnvægi á sykursýki týpu 2 með breyttu mataræði. Rannsóknir hafa líka sýnt að bláber koma jafnvægi á taugaboðefni líkamans eftir mikið streituálag.

ENGIFER
Þessa dásamlegu rót má nota bæði í sæta og bragðmikla rétti, hvort sem hún er notuð fersk eða sem malað duft úr henni. Engifer er styrkjandi fyrir lifrina, en þegar hún er undir álagi myndast oft bólgur í hnjánum. Rannsóknir hafa sýnt að dagleg notkun á engifer dregur úr slíkum bólgum.

Hægt er að drekka te úr heiti vatni sem hellt er yfir sneiðar af lífrænt ræktuðum engifer (fæst yfirleitt í Nettó), rífa ferskan engifer á rifjárni yfir salatdiskinn, nota engifer í græna morgunsafann eða í matseld.

GRANATEPLI
Þessi dásamlegu epli, sem eru í raun ekki epli, eru sérstök að því leyti að maður borðar ekki eplið, heldur fræin innan úr því. Rannsóknir hafa sýnt að granatepli geta dregið verulega úr bólgum í líkamanum og haft meðal annars góð áhrif á sykursýki týpu 2, sem hægt er að leiðrétta með réttu mataræði. Að auki hafa granatepli eða safi úr þeim, sérlega góð áhrif á þá sem eru að takast á við bólgur í meltingarveginum eða einhver meltingarvandamál og þá sem eru með liðagigt, þar sem þau draga úr oxandi streituáhrifum í líkamanum.

GRÆNT TE
Græna teið hefur verið notað í aldir alda sem heilsueflandi drykkur í Austurlöndum fjær. Þrátt fyrir að í því sé koffein, hefur það mikil bólgueyðandi áhrif í líkamanum. Það hefur herpandi áhrif á líkamann og vegna þeirra eiginleika hefur það meðal annars styrkjandi áhrif á nýrun. Græna teið frá Clipper er sérlega gott en ég nota mikið tein frá þeim, meðal annars sítrónu- og engiferteið.

Ef þú vilt losna við bólgusjúkdóma eru ýmsar fæðutegundir sem þarf að fjarlægja úr mataræðinu, en þessar fimm ofantöldu eru svo sannarlega þess virði að bæta í það.


Ef þér fannst þessi grein áhugaverð, deildu henni þá endilega með öðrum.
Skráðu þig á póstlistann til að fá reglulega tilboð og fréttir af því sem Guðrún er að gera.

Heimildir: Greenmedinfo.com
Mynd: Can Stock Photo/swhite

 

 

 

image_print

Um höfund

Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
  • 582 Posts
  • 0 Comments
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
Deila áfram