FÆRÐU OFT ÞVAGFÆRASÝKINGU?

Ef þú ert ein af þeim sem færð oft þvagfærasýkingu (algengara meðal kvenna) eða þjáist af tíðum þvaglátum, hefurðu sennilega einhvern tímann fengið ráð um að drekka trönuberjasafa til að koma þvagfærunum í gott lag aftur. En hefurðu velt því fyrir þér hvað það er í trönuberjum sem leiðir til bata?

Efnið sem gefur trönuberjasafanum þennan heilandi eiginleika er sykur sem kallast D-Mannose. Þetta virka efni í trönuberjum finnst líka í minna mæli í ávöxtum eins og eplum, bláberjum, ferskjum, appelsínum og ananas. Þótt D-Mannose sé í sömu „fjölskyldu“ og aðrar sykrur eins og frúktósi, glúkósi, laktósi og súkrósi, þá virkar D-Mannose á allt annan hátt í mannslíkamanum.

D-Mannose er það sem kallast glyconutrient (orkunæring), sem gerir hann að heilsueflandi sykri. Það er hluti af mólekúli sem kallast glycoconjugates (sykurblandprótín), sem spilar mikilvægt hlutverk í frumusamskiptum. Glycoconjugates hjálpar frumum þínum að eiga í samskiptum sín á milli, með því að þekja yfirborð þeirra með sykurlíkum hjúp. D-Mannose fæst nú sem bætiefni frá NOW í nokkrum apótekum hér á landi.

EN HVERNIG VIRKAR D-MANNOSE Á ÞVAGFÆRAVANDAMÁL?

Rannsóknir hafa sýnt að um 90% af sýkingum í þvagrás og blöðru er vegna E.coli baktería (saurgerla sem smitast frá endaþarmi). Þegar þessar bakteríur komast inn í þvagrásina festa þær sig við frumur hennar, vaxa og dafna og valda sýkingu. Vísindamenn hafa nýverið komist að þeirri niðurstöðu að D-Mannose lækni þvagfærasýkingar með því að hindra að þessar bakteríur geti fest sig við frumurnar.

Þegar þú borðar fæðu eða tekur inn bætiefni sem inniheldur D-Mannose, þarf líkaminn að losa sig við efnið í gegnum nýrun og skila því út í gegnum þvagfærin. Þegar efnið fer um þvagrásins, festir það sig við E.coli bakteríurnar sem þar eru (eða kunna að vera), sem leiðir til þess að þær geta ekki fest sig við frumurnar í þvagrásinni og valdið sýkingu.

Rannsóknir árin 2013, 2014 og 2016 sýndu að D-Mannose virkaði jafn vel og stundum betur við meðhöndlun þvagfærasýkinga hjá konum en sýklalyf.

EKKI ERU ALLAR SYKRUR EINS

Ólíkt súkrósa og frúktósa truflar D-Mannose hvorki jafnvægið á blóðsykri þínum né meltinguna, vegna þess að einungis lítill hluti hans meltist. D-Mannose virkar á vissan hátt eins og glúkósi, sykur sem öllum frumum þínum er ætlað að nota. Upptakan á D-Mannose er þó mun hægari en á glúkósa og hann þjónar ekki sem orkuforði fyrir líkamann eins og glúkósinn gerir.

Vegna einstakra eiginleika sinna brotnar D-Mannose ekki niður fyrr en hann skilst út með þvagi. Hann safnast heldur ekki upp í líkama þínum eins og glúkósi gerir. Nánast allur sá D-Mannose sem þú neytir (eða tekur inn sem bætiefni) síast í gegnum nýrun og þaðan liggur leiðin í gegnum þvagfærin til útskilunar. Þessar staðreyndir skýra hvers vegna þessi sykur getur unnið verk sitt, en það er að hindra bakteríur eins og E.coli í að festa sig við þvagrásarveggina, án þess að breyta einhverju um almenna líkamsstarfsemi.

HEILSUFARSÁHRIFIN AF D-MANNOSE

Í grein á vef Dr. Mercola, en þaðan hef ég meðal annars heimildir fyrir þessa grein, segir að ein helstu heilsufarsáhrif D-Mannose séu að viðhalda heilbrigðri þvargrás. Gert er ráð fyrir að ein af hverjum tveimur konum fái einhvern tímann um ævina þvagfærasýkingu og ein af hverjum fimm konum séu með síendurtekin blöðruvandamál.

Ýmsir læknar í Bandaríkjunum hafa verið að ráðleggja konum D-Mannose við þvagfærasýkingum allt frá því í kringum 1985. Nýlegar rannsóknir hafa staðfest það sem þessir læknar og sjúklingar hafa vitað í áratugi, sem er að D-Mannose virkar.

MISMUNUR Á TRÖNUBERJASAFA OG D-MANNOSE BÆTIEFNUM

Í eðli sínu er trönuberjasafi mjög rammur og því eiga flestir erfitt með að drekka hann ósykraðan. Sé hann sættur með maíssírópi eða öðrum sætuefnum getur hann gert meiri skaða en gagn, þar sem slæm áhrif sykursins vinna gegn góðum áhrifum D-Mannose. Auk þess þarf að drekka mikið af ósykruðum trönuberjasafa til að ná því magni af D-Mannose sem þarf til að vinna á bakteríunum.

Ef þú hefur átt við þvagfærasýkingar að stríða ráðleggja læknar eins og Dr. Mercola að tekinn sé fullur skammtur af D-Mannose, þ.e. 3 hylki 3svar á dag í minnst 10 daga. Þegar sýkingareinkennin eru horfin er svo ráðlagt að taka inn 3 hylki einu sinni á dag til að viðhalda heilbrigðum þvagfærum.

GETUR D-MANNOSE HAFT ÁHRIF Á MELTINGARVEGINN?

Nokkrar rannsóknir gefa til kynna að D-Mannose geti einnig nýst vel sem „prebiotic“, en prebiotics eru efni sem hvetja til fjölgunar vinveittra baktería í þörmum og ristli. Vísbendingar eru líka um að D-Mannose verji meltingarveginn gegn lektínum, en lektín eru prótín sem finnast í baunum, fræjum, korni og jafnvel sumu grænmeti og ávöxtum. Þau valda vandamálum í meltingunni því þau brotna hvorki niður með magasýrum né meltingarensímum.

ÖRFÁAR LEIÐBEININGAR UM BETRI HEILSU

Þar sem konur fá mun oftar blöðruvandamál en karlar, eru eftirfarandi ráð ætluð konum svo þær geti viðhaldið heilbrigðum þvagfærum.

 • Drekkið mikið af vatni daglega. Ég vel að sjóða allt mitt vatn og kæla það, áður en ég drekk það. Sú aðferð hefur skilað mér betri nýrnaheilsu.
 • Tæmið blöðruna þegar ykkur er mál. Ekki halda í ykkur.
 • Þurrkið ykkur vel frá fremri hluta þvagfæra og aftur.
 • Farið í sturtu frekar en baða ykkur í baðkari.
 • Forðist heita potta. Sána og infra-rauð sána eru betri valkostir.
 • Þvoið kynfærin áður en kynlíf er stundað.
 • Forðist að nota kemísk sprey og önnur efni sem kunna að erta kynfærin, þar með talda lyktarlausa túrtappa úr lífrænni bómull.
 • Notið óbleiktan (ekki hvítan) og lyktarlausan salernispappir.
 • Notið skolskál í stað salernispappírs ef það er í boði.

Með því að fylgja þessum ráðum og taka reglulega inn D-Mannose, ættuð þið að gera búið til heilbrigt umhverfi í kringum þvagfærin, því forvarnir eru lykilatriði þegar kemur að heilsu þeirra.

Neytendaupplýsingar: D-Mannose fæst í apótekum eins og Lyf og Heilsu í Kringlunni og á Granda, Íslandsapóteki og Reykjanesapóteki.

Mynd: Can Stock Photo / krishnacreation

Heimildir: healthline.com og dr.mercola.com

 

image_print

Um höfund

Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
 • 591 Posts
 • 0 Comments
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
Deila áfram