FÆÐA SEM VELDUR EÐA DREGUR ÚR BÓLGUM

Fyrir viku síðan skrifað ég grein undir heitinu ERTU MEÐ BÓLGUR OG LIÐVERKI, sem tæplega 11 þúsund manns hafa nú smellt á. Nú er komið að framhaldinu, en í þessari grein fjalla ég fyrst um hluta af þeim fæðutegundum sem þarf að forðast, ef við ætlum að draga úr bólgum og ýmsum sjálfsónæmissjúkdómum í líkama okkar – og svo koma hugmyndir að því sem nota má í staðinn. Enginn veit betur en við sjálf hvað er að gerast í líkama okkar og líðanin batnar ekki fyrr en við tökum ábyrgð á honum og gerum allt sem við getum til að heila hann.

FÆÐA SEM VELDUR BÓLGUM
Það eru ótal fæðutegundir sem þarf að forðast ef hjálpa á líkamanum að losna við bólgur og ýmis önnur líkamleg vandamál. Efst á lista eru þessar:

ALLAR MJÓLKURVÖRUR þar með taldir ostar og rjómi falla líka í þann flokk. Tek það sérstaklega fram, því svo margir spyrja mig að því.

BRAUÐ, BRAUÐMETI OG KÖKUR SEM INNIHALDA GLÚTEN Hveiti hefur verið svo mikið erfðabreytt síðustu 100 árin að líkaminn þekkir það ekki lengur og glútenið í því veldur bólgum, meðal annars í meltingarveginum og er hinn mesti heilsuskaðvaldur. Glúten er líka notað sem fylliefni í ótal tilbúnum réttum, í bætiefnum og lyfjum.

SYKUR, EKKI BARA HVÍTUR heldur líka hrásykur og púðursykur, sem er litaður hvítur sykur. Maíssíróp, gjarnan merkt sem High Fructose Corn Syrup eða jafnvel bara sem HFCS og er eitt mest ávanabindandi sætuefni á markaðnum í dag. Það er meðal annars að finna í ýmsum tilbúnum heilsubitum, svo lesið vel innihaldslýsingar ÁÐUR en þið kaupið, jafnvel þótt þær séu flestar skrifaðar með dvergaletri. Ein góð hugmynd er að taka mynd af innihaldslýsingunni á símann og stækka hana til að geta lesið hvað þar stendur.

MAÍS BÆÐI FERSKUR OG EINS Í MJÖLI en maís er talinn mikill bólguvaldur, meðal annars vegna þess hversu erfðabreyttur hann er. Maísmjöli er blandað í mikið af tilbúnum sósum, sósujöfnurum, ýmsa tilbúna rétti og notað sem fylliefni í lyfjum.

SVÍNAKJÖT þar með talið beikon. Allt tilbúið kjötálegg sem oft inniheldur glúten og allar tilbúnar pylsur.

NÁTTSKUGGAGRÆNMETI eins og tómatar, paprikur, eggaldin og kartöflur – og ávextir eins og appelsínur og bananar.

Þetta er ekki tæmandi listi, en hægt að lesa sig til um þær matvörur sem ráðlagt er að forðast í bókinni HREINT MATARÆÐI eftir hjartasérfræðinginn Alejandro Junger eða læra meira um það á námskeiðum mínum um HREINT MATARÆÐI. Næsta námskeið í Reykjavík verður strax eftir páska og þeir sem vilja geta skráð sig á biðlista með því að senda mér póst.

FÆÐA SEM DREGUR ÚR BÓLGUM
Það eru ótal margar fæðutegundir sem draga úr bólgum og við getum notað í stað þess sem við erum vön að nota og tökum út.

Í STAÐINN FYRIR MJÓLK OG MJÓLKURVÖRUR má nota hamp-, hrísgrjóna- og hnetumjólk, svo og möndlu-, herslihnetu- og valhnetumjólk; kókosmjólk, kókosolíu eða –smjör. Ýmsir vegan-ostar eru til, en lesið vel innihaldslýsingar á þeim. Í mörgum tilbúnum vegan-réttum er að finna mikið af hveiti.

Í STAÐ HVEITIS er hægt að nota glútenlaust kornmeti eins og brún, rauð, svört og villt hrísgrjón, hirsi, amaranth, teff, tapíóka, bókhveiti og kínóa (quinoa). Það er til dæmis upplagt að þykkja sósur með tapíókamjöli. Til eru tilbúnar glútenlausar mjölblöndur sem hægt er að baka úr, en ég vel að forðast þær sem innihalda maísmjöl, þar sem maís er mikill bólguvaldur hjá mér.

SÆTUEFNI sem koma í stað sykurs eru stevíu eða strásætu úr erythritoli. Einnig er hægt að nota í litlu magni agave síróp eða akasíuhunang.

NÁIÐ YKKUR Í DÝRAPRÓTEIN með því að borða ferskan eða niðursoðinn fisk (silung, lax, þorsk, lúðu, túnfisk, makríl, sardínur, steinbít, síld), kjöt af villtum dýrum, lambakjöt, andakjöt og kjöt af kjúklingum eða kalkúnum, helst þeim sem ganga frjálsir.

ÁVEXTIR OG GRÆNMETI en þar eru það að sjálfsögðu ósykraðir ferskir og frosnir heilir ávextir, ósykraðir ávextir niðursoðnir í vatni, avókadó, ólífur, sjávarþang (þari-söl), hrátt, gufusoðið, léttsteikt eða bakað grænmeti, salat, laukur, hvítlaukur og margt fleira úr grænmetisdeildinni, sem hentar vel fyrir góða heilsu.

Ég hvet líka fólk til að taka bætiefni samhliða breyttu mataræði, því þau eru einmitt það sem felst í heitinu, efni sem bæta okkur upp það sem við fáum ekki úr matnum. Staðreyndin er sú að maturinn sem við borðum er oft orðinn asni gamall, hefur ferðast um heiminn vítt og breytt áður en hann nær til okkar, er ræktaður í rýrum jarðvegi og jafnvel hlaðinn alls konar eiturefnum úr ræktunarferlinu. Því þurfum við að bæta okkur upp þau næringarefni sem ekki fást úr matnum með því að taka þau inn.

Ef þér fannst þessi grein áhugaverð, deildu henni þá endilega með öðrum.

Með því að skrá þig á póstlistann færðu greinarnar mínar sendar reglulega, auk þess sem í fréttabréfinu eru upplýsingar um námskeið, tilboð og fleira.

Mynd: Shutterstock

image_print
Deila áfram:

Um höfund

Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
  • 551 Posts
  • 0 Comments
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
error

Viltu deila þessari grein?