ERU MARKMIÐIN EKKI AÐ NÁST?

Með reglulegu millibili setjum við flest okkur einhver markmið með það í huga að ná þeim. Stundum eru þau ein setning um eitthvað sem við ætlum að gera fyrir ákveðinn tíma eins og að mála svefnherbergið eða baðið. Stundum erum við með aðeins flóknari markmið sem tekur lengri tíma til að ná og þá þarf að hafa markmiðin skýrari, svo og ferlið til að ná þeim.

Markmiðum fylgja yfirleitt einhverjar breytingar á eigin lífi og til að ná þeim þarf þá að fylgja nýjum reglum eða aga líf sitt á nýjan máta. Ég veit, ég veit… þú hatar reglur, því þú vilt vera frjáls. Stundum er þetta frelsi, sem okkur er svo tíðrætt um, samt mesti fjötur okkar um fót.

Hér eru nokkur einföld atriði sem ágætt er að styðjast við þegar markmið eru sett.

BYRJAÐU SMÁTT

Þetta hefur oft reynst mér erfitt, þar sem ég er fljótfær og stórhuga, en með því að byrja smátt og hugsa um að ná markmiðunum í skrefum eru mun meiri líkur á að þau náist. Við ofmetum oft hvað við getum gert á einum mánuði og vanmetum það sem við getum gert á 6-12 mánuðum, með því að vinna skipulega að hlutunum.

SKRIFAÐU MARKMIÐIN ÞÍN NIÐUR

Þetta er gullvæg regla, sem hefur sannað sig allt frá því Napoleon Hill skrifað bókina Think and Grow Rich. Markmið sem eru komin úr huganum og á blað verða mun skýrari. Þá er líka að veldara að brjóta stóru markmiðin niður í minni áfanga og taka síðan þau skref sem þarf til að ná þeim.

LESTU MARKMIÐIN REGLULEGA

Napoleon Hill hvatti til þess að markmiðin væru lesin daglega. Með þau í huga væri svo hægt að skrifa niður verkefni næsta dags í samræmi við þau. Hans er ekki eina reglan, því aðrir velja að lesa markmiðin sín vikulega og skrifa niður hvað þeir þurfa að gera yfir vikuna til að ná þeim.

Hvor leiðin sem valin er, þá er mikilvægt að hafa markmiðin daglega í huga. Ef vikið er af þeirri leið sem liggur að þeim, er um að gera að koma sér strax inn á hana á ný.

SÝNDU STAÐFESTU

Þú getur áorkað mun meiru en þú heldur og þegar þú sýnir staðfestu ertu að vinna með þinn innri styrk. Ef þú ert að temja þér nýjan vana, getur það tekið allt frá 18 og upp í 243 daga (skv. rannsóknum í Bretlandi) að ná að festa hann í sessi. Því er þörf á að kalla til staðfestuna, ekki bara í dag og á morgun, heldur alla daga uns markmiðinu er náð.

VERTU TILBÚIN/-N TIL AÐ LÆRA

Við lærum svo lengi sem við lifum og því er mikilvægt að vera með opinn huga og hlusta á nýjar hugmyndir. Stundum þurfum við smá tíma til að nema eitthvað nýtt, en þeim mun meira sem við lærum, þeim mun hæfari verðum við í að ná markmiðum okkar.

ER TIL FLÝTILEIÐ?

Því miður er hún sjaldan í boði. Það er ekki til nein gul pilla með grænum doppum sem hægt er að taka til að grennast, fara hraðar í gegnum nám, ná árangri í starfi eða bæta heilsuna. Flest það sem við stefnum að tekur tíma og gerir kröfu um eftirfylgni, úthald og áræðni.

Getan til að ná árangri býr hins vegar í öllum. Við þurfum bara að draga fram duldu hæfileikana sem við búum yfir og beita þeim til árangurs fyrir okkur sjálf – því við getum í flestum tilvikum svo miklu meira en við höldum.

Guðrún Bergmann hefur í rúm 28 ár haldið ýmis konar sjálfsræktarnámskeið fyrir karla og konur, hér á landi og erlendis. Hún hefur skrifað 17 bækur og heitir sú nýjasta HREINN LÍFSSTÍLL. Námskeið hennar HREINT MATARÆÐI hafa verið sótt af tæplega 1.200 manns á rúmum 3 árum.

 

image_print

Um höfund

Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
  • 582 Posts
  • 0 Comments
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
Deila áfram