ER ÞRÝSTINGURINN Í LAGI HJÁ ÞÉR?

MEGININNTAK GREINARINNAR:

  • Viðvarandi hár blóðþrýstingur er algengt vandamál og kallast háþrýstingur.
  • Háþrýstingur getur valdið skaða á ýmsum líffærum, en þau viðkvæmustu eru hjarta, heili og nýru.
  • Lífsstíll og réttu bætiefnin geta haft mikil áhrif á háþrýsting.

Fylgstu með Guðrúnu daglega á FACEBOOK eða skráðu þig í HEILSUKLÚBBINN


ER ÞRÝSTINGURINN Í LAGI HJÁ ÞÉR?

Þegar aldurinn færist yfir verður viðvarandi hár blóðþrýstingur algengt vandamál hjá mörgum. Vísað er til hans sem háþrýstings, en það þýðir að þrýstingurinn sé of mikill inni í slagæðunum. Ýmsir vísa til háþrýstings sem hins “þögla banameins”, þar sem hann skemmir hægt og lævíslega æðaveggina og innri líffæri okkar, jafnvel þegar þrýstingurinn er bara örlítið of hár. Þau líffæri sem eru í mestri hættu eru hjarta, heili og nýru.

MARGIR VANMETA HÆTTUNA

Algengt er að fólk vanmeti þá hættu sem af háþrýstingi getur stafað með því að vilja forðast að taka lyf, gleyma að taka lyfin eða ákveða að þeir geti stjórnað blóðþrýstingnum með streitustjórnun. Þótt streita geti verið undirliggjandi þáttur í hækkun á blóðþrýstingi er hún ekki alltaf aðalorsökin. Læknisfræðilega skilgreiningin er tvíþætt:

  • Eðlislægur háþrýstingur er algengstur og vísar til hækkunar á blóðþrýstingi án sérstakrar undirliggjandi ástæðu.
  • Annars konar háþrýstingur er vísun til hækkunar á blóðþrýstingi sem getur verið afleiðing annarra heilsufarslegra vandamála, eins og til dæmis nýrnasjúkdóma.

HVERNIG ER BLÓÐÞRÝSTINGUR MÆLDUR?

Eðlileg viðmið blóðþrýstings eru gjarnan hjá ungu fólki 120/80 og ættu að vera140/90 hjá þeim sem eldri eru, en algengt er að þrýstingurinn hækki með aldrinum. Náttúrulæknar tala þó um að 150/90 sé eðlilegt fyrir þá sem eru komnir yfir fimmtugt

  • Slagbilsþrýstingur (systolic) er hærri talan þegar blóðþrýstingur er mældur og sýnir hámarksþrýsting á slagæðarnar þegar hjartað dregst saman og dælir blóði út í slagæðarnar.
  • Þanþrýstingur (díastolu) er lægri talan þegar blóðþrýstingur er mældur og sýnir lágmarksþrýsting á slagæðarnar milli samdráttar þegar hjartað slakar á til að fylla sig blóði.

Oftast hækkar blóðþrýstingurinn vegna þess að slagæðarnar harðna eða þrengjast. Við það missa æðarnar teygjanleika sinn og hjartað þarf að nota meiri þrýsting til að dæla blóðinu í gegnum æðarnar.

HÁÞRÝSTINGSEINKENNI

Ef háþrýstingur er algengur í ættinni er gott að láta mæla blóðþrýstinginn reglulega. Oft er fólk með hækkaðan blóðþrýsting, án þess að finna til einkenna, en möguleg einkenni geta verið:

  • Höfuðverkur
  • Svimi
  • Einbeitingarerfiðleikar
  • Síþreyta
  • Léleg sjón
  • Suð fyrir eyrunum
  • Krampi í fótleggjum (sinadráttur)
  • Brjóstverkur
  • Hjartsláttarónot
  • Mæði

LÍFSSTÍLLINN GETUR HAFT ÁHRIF

Auk lyfja eða bætiefna hefur breyttur lífsstíll mikil áhrif á háþrýsting. Ég hef fengið marga til mín á HREINT MATARÆÐI námskeiðin, sem hafa verið með hækkaðan þrýsting. Þeir hafa fengið hvatningu frá heimilislækni sínum um að gera breytingar á lífsstílnum, til að sjá hvort þrýstingurinn lækki ekki, áður en lyf eru ráðlögð. Hið ánægjulega er að í öllum tilvikum hefur þrýstingurinn lækkað, en á meðan á hreinsikúrnum stendur eru ýmsar fæðutegundir teknar úr mataræðinu eins og sykur, mjólkurvörur, gosdrykkir, kaffi og allt áfengi.

Aukin svefngæði, sem flestir öðlast við HREINT MATARÆÐI, hafa líka áhrif á háþrýsting, svo og létt líkamsrækt og gönguferðir.

BÆTIEFNI GETA SKIPT MÁLI

Það eru nokkur bætiefni sem geta haft veruleg áhrif á háþrýsting, hvort sem þau eru notuð samhliða lyfseðilsskyldum lyfjum eða ein og sér, bæði sem fyrirbyggjandi ráðstöfun og eins ef þrýstingurinn er byrjaður að hækka.

  • Omega-3 unnið úr fiski er þekkt fyrir að lækka blóðþrýsting og kólesteról. Það getur haldið æðunum hreinum og mjúkum. Mikilvægt er að forðast hertar grænmetisolíur. SJÁ GREIN
  • Magnesíum – Gott er að taka inn magnesíum eitt og sér án kalks til að lækka blóðþrýstinginn og taka samhliða því inn sink. Þá nýtist það betur í líkamanum. Magnesíum slakar á sléttu vöðvunum í æðaveggjunum og stuðlar að opnun slagæðanna, sem lækkar blóðþrýstinginn og eykur blóðflæði til mikilvægra líffæra. Dr. Carolyn Dean, höfundur The Magnesium Miracle segir að mestu birgðir líkamans af magnesíum séu í hjartanu, svo það er mikilvægt að taka það daglega inn – einkum vegna þess að undir álagi losar líkaminn sig við magnesíum. 
  • Co-enzyme Q10 er andoxunarefni sem er nauðsynlegt fyrir heilsu frumna, vefja og líffæra. Það hjálpar þér að viðhalda góðri hjartaheilsu, með því að bæta blóð- og súrefnisflæði til hjartans. Með Co-enzyme Q10 er gott að taka inn selenium til að auka virkni þess og nýtingu. SJÁ GREIN.
  • Hvítlaukur er talinn draga úr háþrýstingi og sem fyrirbyggjandi aðgerð getur verið gott að taka t.d. inn Odorless Garlic t.d. frá NOW eða nota mikið af hvítlauk t.d. í salatsósur eða við matseld.

Auðvelt er að kaupa sér blóðþrýstingsmæli og fylgjast sjálfur með eigin stöðu heima. Hækki þrýstingurinn er ráðlegt að hafa samband við heimilislækni eða breyta um lífsstíl.

Ef þér fannst þessi grein áhugaverð, deildu henni þá endilega með öðrum.

Heimildir: LiverDoctor.com og The Magnesium Miracle eftir Carolyn Dean, M.D., N.D.
Myndir: CanStockPhoto / Iqoncept – Kurhan

image_print

Um höfund

Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
Deila áfram