EKKI LÁTA LÍKAMANN SKRÆLNA UPP

Á námskeiðum mínum um HREINT MATARÆÐI legg ég mikla áherslu á vatnsdrykkju og eru ýmsar ástæður fyrir því. Þátttakendur fá því daglega áminningu frá mér um að drekka nægilega mikið vatn. Hugsanlega varð það til þess að ein kona sem er á NET-sumarnámskeiðinu deildi myndinni sem er í greininni með Facebook hópi námskeiðsins.

Tölurnar tala sínu máli og skýra hversu mikið vatn er í mannslíkamanum:
Blóðið er 83% vatn – Heilinn 74,5% vatn – Nýrun 83% vatn – Lifrin 86% vatn – Vöðvarnir 76% vatn – Bandvefur 60% vatn – Húðin 70% vatn – Beinin 22% vatn – Fitan 20% vatn.

Í báðum síðustu bókum mínum hef ég fjallað um mikilvægi vatnsdrykkju. Myndin varð svo kveikjan að þessari grein, því það er aldrei fjallað of oft um mikilvægi vatnsdrykkju.

STARFSHÆFNIN SKERÐIST ÁN VATNS

Regluleg vatnsdrykkja er mikilvæg fyrir góða heilsu. Um 60-70% líkamsþyngdar okkar er vatn og alla daga verðum við fyrir vökvatapi við öndun, svita og meltingu. Starfshæfni nánast allra kerfa líkamans skerðist ef okkur skortir vatn, svo það er mikilvægt að drekka það reglulega.

Staðreyndin er sú að við getum einungis lifað í fáa daga, kannski viku, án vatns en mun lengur án matar. Við getum nýtt okkur vökva úr ýmsum ávöxtum og grænmeti, en líkaminn meðtekur samt einungis vatn sem vatn. Allan annan vökva þarf hann að melta.

FERÐALÖG GANGA Á VATNSBIRGÐIR LÍKAMANS

Ferðalög í flugvélum og bílum ganga mjög á vatnsbirgðir líkamans. Því er mikilvægt að drekka reglulega vatn á slíkum ferðalögum. Flugferðir eru þó aðgangsharðari á vatnsbirgðirnar en bílferðir og því þarf að drekka mikið vatn bæði meðan á flugferð stendur, svo og næstu daga á eftir, uns jafnvægi er komið á vökva líkamans á ný.

Fyrsta merki um ofþornun er þurrkur í hálsi og eina sem leiðréttir hana er vatn. Margir bregðast þó við þessum boðum með því að borða í stað þess að drekka. Vatnið er samt best og það dregur líka úr svengdartilfinningu. Prófið bara næst þegar þið verðið svöng. Drekkið eitt eða tvö vatnsglös og fyrr en varir hverfur svengdartilfinningin.

GILDAR ÁSTÆÐUR FYRIR VATNSDRYKKJU

Eins og sjá má á eftirfarandi upplýsingum eru gildir ástæður fyrir því að drekka vatn, því það gegnir mikilvægu hlutverki í mörgum þáttum líkamsstarfseminnar.

1. Vatn stuðlar að jafnvægi á ýmsum vökvum líkamans

Þessir líkamsvökvar tengjast meltingu, upptöku næringarefna, blóðflæði, munnvatnsframleiðslu, flutningi á næringarefnum og jafnvægi á líkamshitanum. Heilinn sendir til dæmis boð frá aftari hluta heiladinguls til nýrnanna og lætur þau vita hversu mikinn vökva þau mega losa í gegnum þvag eða hversu mikið þau eiga að halda í sem varabirgðir. Þegar líkamann vantar vökva sendir heilinn frá sér þorstaskilaboð. Þá þarf að svala þorstanum með öllu öðru en áfengum drykkjum. Þeir leiða til of mikillar vökvalosunar og afleiðingin getur orðið ofþornun.

2. Vatn losar líkamann við úrgang og bakteríur

Fullnægjandi vatnsdrykkja hjálpar líkamanum að losa sig við úrgang með svita, þvagi og hægðum. Nýrun og lifrin nota það til að skola út úrgangi og það gera þarmarnir líka. Vatn dregur úr líkum á hægðatregðu eða harðlífi með því að stuðla að betra flæði um þarma og ristil.

Drekkir þú ekki nægilega mikið vatn dregur ristillinn vökva úr saurnum til að viðhalda eigin raka og það veldur harðlífi. Nægileg vatnsdrykkja og trefjar, eins og Pshyllium Husks frá NOW, geta hjálpað til við að viðhalda góðri losun þegar ristillinn er farinn að virka vel.

3. Vatn fyllir vöðvana orku

Frumur sem viðhalda ekki vökvajafnvægi sínu og rafvökum (rafkleyfum efnum) þorna upp og það getur leitt til vöðvaþreytu, ekki bara hjá þeim sem æfa stíft, því vöðvavefir okkar eru um 76% vatn. Ofþornun getur leitt til máttleysis, þreytu og svima.

4. Vatn dregur úr liðverkjum

Vatnsdrykkja getur dregið úr sársauka í liðum með því að halda brjóskinu mjúku og röku. Þannig dregur glúkósamín úr liðverkjum með því að stuðla að upptöku brjósksins á vatni.

5. Vatn dregur úr geðsveiflum

Rannsóknir sýna að ofþornun getur haft áhrif á lundarfar fólks og leitt til geðillsku og pirrings. Höfuðverkur getur líka oft stafað af vatnsskorti, svo næst þegar þú færð höfuðverk geturðu prófað að drekka vatn í stað þess að taka verkjalyf.

6. Vatn leiðir til betri virkni húðarinnar

Húðin er stærsta líffæri líkamans. Næg og regluleg vatnsdrykkja getur bætt lit hennar og áferð því það stuðlar að reglulegri endurnýjun frumnanna. Þó er ekki hægt að gera ráð fyrir að allar hrukkur og fínar línur hverfi með vatnsþambi. Næg vatnsdrykkja styður hins vegar það hlutverk húðarinnar að halda jafnvægi á hitastigi líkamans með svita.

Grein þessi er byggð að hluta til á kafla í bókinni HREINN LÍFSSTÍLL en bókina má panta hér á vefnum.

Mynd: CanStockPhoto / Kraftstock

image_print
Deila áfram:

Um höfund

Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
  • 503 Posts
  • 0 Comments
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
error

Viltu deila þessari grein?