Kannski er það vegna þess að jólasveinar eru á flakki um allt þessa dagana að ég fór að hugsa um þá sem eru mér eftirminnilegastir. Þar eru þrír sem skipa sérstakan sess og mig langar að deila sögunni af þeim með ykkur.
FYRSTI JÓLASVEINNINN
Manst þú eftir fyrsta jólasveininum sem þú hittir? Ég man svo greinilega eftir mínum, þótt ég hafi bara verið rúmlega þriggja ára þegar ég hitti hann. Ég var á leið upp á Fæðingardeild Landspítalans með móður minni, til að heimsækja móðursystur mína Sigrúnu (kölluð Dúdda), sem hafði fætt litla stúlku þann 17. desember. Þá tíðkaðist ekki að senda konur heim strax eftir fæðingu, heldur lágu þær á sæng í viku eða svo.
Við áttum heima á Kárastígnum og gengum þaðan framhjá braggahverfinu á Skólavörðuholtinu og niður Eiríksgötu. Þegar við komum fyrir hornið á Eiríksgötu og Barónstíg gengum við beint í fangið á Kertasníki, sem var með fullan poka af gjöfum á leið í eitthvað hús í nágrenninu.
Það urðu heldur betur fagnaðarfundir. Jólasveinninn brá pokanum af bakinu og lagði hann á gangstéttina, teygði sig niður i hann eftir pakka af suðusúkkulaði og gaf mér. Ég var heldur betur roggin með mig þegar við komum upp á Fæðingardeild og gekk kotroskin inn í stofuna, veifandi súkkulaðipakkanum og hrópaði, svo hefur sennilega heyrst um allan gang: „Dúdda, Dúdda! Ég hitti jólasvein og hann gaf mér súkkulaði!“
Í þessari hemsókn féll nýfædd frænka mín dálítið í skuggann af þessu jólasveinaævintýri.
ALVEG EINS SKÓR OG GRÉTAR FRÆNDI
Við vorum nýflutt í Smáíbúðarhverfið og ég rúmlega sex ára, þegar við fengum jólasveinn í heimsókn til okkar. Það var á Þorláksmessu og pabbi hafði tekið að sér að sækja hann á jeppanum upp í Esju. Þetta var að sjálfsögðu líka Kertasníkir, snemma á ferðinni vegna þess að hann þurfti ekki að ganga til byggða. Við systkinin vorum full eftirvæntingar meðan beðið var eftir því að pabbi kæmi atur og veltum á meðan mikið fyrir okkur, hvernig pabbi myndi vita hvar jólasveininn væri að finna.
Spennan var því í hámarki þegar hann mætti með jólasveininn, sem var hinn allra skemmtilegasti, gantaðist við okkur, söng fyrir okkur, fékk kerti frá okkur og kom með pakka. Þegar kom að því að kveðja fór hann ekki út um dyrnar sem hann hafði komið inn um á efri hæðinni, heldur tók stigann niður í kjallara.
Við hrópuðum á eftir honum að þetta væri ekki rétta leiðin út, en pabbi fylgdi honum eftir og sagðist myndu opna fyrir honum kjallardyrnar. Við sáum reyndar enn í bakið á jólasveininum þegar ég sneri ég mér að mömmu og sagði: „Veistu mamma! Jólasveinninn á alveg eins skó og Grétar frændi!“
Grétar var föðurbróðir minn og stundaði á þessum tíma leiklistarnám. Tengslin á milli Grétars og skónna fattaði ég hins vegar ekki fyrr en löngu síðar.
ENN EINN KERTASNÍKIRINN
Þriðji og allra eftirminnilegasti jólasveinninn mætti í heiminn kl. 01:15 á aðfangadag árið 1972, en þá fæddist Guðjón eldri sonur minn. Þótt hann hafi ekki fengið nafnið Kertasníkir, kalla ég hann oft jólasveininn minn vegna fæðingardagsins. Hann kom svo sannarlega með ljós og birtu og mikla hamingju, sem hefur bara vaxið með árunum.
Fæðingarnóttin var eftirminnileg fyrir nokkrar sakir, meðal annars þá að rafmagn fór af allri austurborg Reykjavíkur. Ég kom upp á Fæðingarheimilið við Eiríksgötu í kringum miðnætti með sjúkrabíl, því ég hafði fengið svo harðar hríðir. Móttökurnar voru ekki beint vinsamlegar því ljósmóðirin sem tók á móti mér horfði á netta kúluna og spurði með smá þjósti: „Ertu viss um að þú sért komin á tíma?“ Ég hélt nú það, enda komin um 2 vikur fram yfir ásettan tíma.
Mér var rúllað inn á fæðingarstofuna, sagt að hátta mig og leggjast í fæðingarrúm sem þar var. Svo fóru allir út og gleymdu að segja mér hvar bjallan var. Ég varð því að banka í rúmgrindina og hrópa á hjálp til að fá aðstoð, þegar fæðingin var í raun komin af stað – því þegar ljósmóðirin loks mætti, sú sama og hélt ég væri ekki komin á tíma – sást í kollinn á barninu. Þá var þotið upp til handa og fóta og hann fæddur nokkrum mínútum síðar.
Eftir allan frágang lá ég áfram á fæðingarstofunni með litla jólasveininn minn í vöggu mér við hlið. Ég gat ekki sofnað og lá bara og horfði á það undraverk sem ég hafði fætt af mér, drenginn sem mér fannst auðvitað fallegasta barn í heimi. Inni var ljós og birta, úti myrkvuð borgin vegna rafmangsleysis.
Myndir: Oleg Sergeichik á Unsplash og Srikanta H.U. á Unsplash
Um höfund
![Guðrún Bergmann](https://gudrunbergmann.is/wp-content/uploads/2022/03/Portrait-150x150.jpg)
- Guðrún Bergmann
- Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
Síðustu færslur
Greinar19. janúar, 2025FYRSTA NÝJA TUNGL ÁRSINS 2025
Greinar16. janúar, 2025HVER STJÓRNAR ÞÍNUM LÍKAMA?
Greinar13. janúar, 2025FULLT TUNGL Í DAG
Greinar11. janúar, 2025YFIRLIT YFIR ÁRIÐ 2025