EFTIR ÁR HÉÐAN Í FRÁ
Ég heyri svo oft hjá þeim sem sækja námskeiðin mín eða leita til mín persónulega þessi orð: “Ef ég hefði bara byrjað fyrr.” Sjálf hef ég örugglega sagt þau nokkrum sinnum á lífsleiðinni, en ég hef lært og legg mig meira fram um að gera hlutina NÚNA. Þess vegna finnast mér áramótin alltaf vera tími til að setja ný markmið eða áskoranir fyrir það sem framundan ef. Ef við höldum ekki áfram að vaxa og dafna erum við að hrörna og neistinn innra með okkur að deyja.
Kannski hefur þú ekki vanið þig á að setja þér markmið eða hugsað mikið út í það hvernig þú vilt að hvert ár framundan verði. Við ráðum sjaldnast öllu um það, en við ráðum miklu, bara með ákvörðunum okkar. Þú getur ef þú vilt nýtt þér tækifæri núna til að “teikna” og þar með ákveða, hvernig þú vilt að hið fullkomna ár hjá þér líti út. Markmiðin kveikja alltaf í manni innri elda og hvetja mann til dáða. Hér eru nokkur ráð fyrir þá sem virkilega vilja búa sér til mynd af komandi ári.
1-HVAÐ GEKK VEL
Skrifaðu niður á blað, með penna eða blýanti 20+ hluti sem gengu vel á síðasta ári. Skoðaðu hvað þú lærðir af því sem vel gekk og hvaða þekkingu þú öðlist, sem þú getur nýtt þér á komandi ári til að ná enn meiri árangri.
2-TEIKNAÐU UPP FULLKOMIÐ ÁR
Skrifaðu niður á blað, teiknaðu myndir eða klipptu út myndir til að líma á stórt blað allar þær hugmyndir sem þú hefur um fullkomið ár hjá þér. Hafðu markmiðin stærri en þú heldur að þú náir, til að þú teygir þið aðeins lengra en þú heldur að sé mögulegt.
3-SETTU ÞÉR 5 MÁNAÐARLEG FORGANGSVERKEFNI
Skrifaðu niður fimm verkefni sem þú ætlar að leysa í hverjum mánuði, hvort þau sem snúa að starfi þínu eða persónulegu lífi. Um leið og þú ert búin að skrifa þau niður byrjarðu ósjálfrátt að sá fyrir þér hvernig hægt að að leysa þau.
4-LOSAÐU ÞIG VIÐ ÚRTÖLUFÓLK
Þetta er svolítið töff tillaga, en ef það er einhver eða einhverjir í kringum þig sem sífellt eru með úrtölur, þegar þú færð frábærar hugmyndir eða vilt gera eitthvað sem ögrar þér, þarftu annað hvort að biðja viðkomandi að hætta úrtölunum eða finna þér aðra til að umgangast. Annars er hætta á að hugmyndir þínar verði úrtölunum að bráð.
5-BÚÐU ÞÉR TIL DAGLEGAR STAÐFESTINGAR
Útbúðu stutta setningu eða 2-3 jákvæðar staðfestingar sem þú segir upphátt á hverjum morgni. “Ég er ákveðin/-n í að ná x miklum árangri í sundi…” eða hverju sem þú vilt ná árangri í. Búðu til staðfestingar sem samræmast þeim fimm forgangsverkefnum sem þú setur þér mánaðarlega. Lestu staðfestingarnar daglega.
Eftir ár héðan í frá myndir þú óska þess að hafa byrjað NÚNA! Þess vegna er svo mikilvægt að hefjast handa strax, til að þú verðir allt það besta sem þú getur orðið. Heimurinn þarfnast þess að þú látir ljós þitt skína og í lok þessa árs muntu geta litið um öxl og þakkað fyrir allt sem þú afrekaðir – en bara ef þú hefst handa NÚNA!
Ef þér fannst þessi grein áhugaverð, deildu henni þá endilega með öðrum.
Skráðu þig á póstlistann minn til að fá reglulega sendar greinar, tilboð og upplýsingar um hvað er á dagskrá hjá mér.