DRAGÐU ÚR BÓLGUM MEÐ BREYTTU MATARÆÐI

Flestir alvarlegir sjúkdómar eiga rætur sínar að rekja til þess að það myndast bólgur og síðan bólgusjúkdómar í líkamanum. Mataræði spilar stórt hlutverk í bólgumyndun, þótt ýmislegt annað komi auðvitað til.

Blanda af góðu mataræði og bætiefnum sem styrkja líkamann er að mínu mati best, en hér koma hugmyndir að nokkrum fæðutegundum sem annað hvort er gott að sleppa eða bæta við mataræði sitt, til að draga úr líkum á bólgum og bólgusjúkdómum.

1 – Dragið úr eða hættið alveg neyslu á náttskuggagrænmeti eins og hvítum kartöflum, tómötum, eggaldini, papriku og cayenne pipar. Í þessum fæðutegundum eru lektín sem hafa bólgumyndandi áhrif í líkamanum.

2 – Dragið úr eða hættið alveg neyslu á maís og vörum sem í er blandað maísmjöli, maíssterkju eða maíssírópi (corn starch, high fructose corn syrup o.fl.). Maís er talinn hafa mjög bólgumyndandi áhrif í líkamanum.

3 – Búið ykkur til könnu af engifertei á morgnana og drekkið það yfir daginn. Engifer er vatnslosandi og styrkjandi fyrir lifur og nýru.

4 – Takið inn Omega-3 olíur eða hylki daglega eða borðið djúpsjávarfisk sem er ríkur af Omega-3 fitusýrum tvisvar til þrisvar í viku.

5 – Gætið þess að allt rautt kjöt sem þið borðið sé af grasbítum, eins og íslenskt lamba- og nautakjöt almennt er. Við erum það sem við borðum borðar, svo ef dýrin eru alin á öðru fóðri en grasi, fer slíkt fóður með kjötinu í líkama okkar líka.

6 – Kaupið lífrænt ræktaða ávexti þegar þeir eru í boði. Það tryggir að þeir og jarðvegurinn sem þeir vaxa í hafi ekki verið úðaður með Roundup og því innihalda þeir ekki glýfósat.

7 – Fáið ykkur mulin hörfræ eins og t.d. frá Himneskri hollustu með morgunmatnum. Hvort sem þau eru sett út í búst eða morgungraut eins og hafra- eða chiagraut er það gott fyrir þarmana og hægðirnar.

8 – Borðið reglulega dökkt blaðgrænmeti grænmeti eins og grænkál, rúkóla, bok choy, brokkólí og rósakál, svo oghvítkál (soðið) og blómkál. Radísur og nípur eru vatnslosandi og góðar út í salat eða einar sér með mat eða ídýfu.

9 – Hver kaffibolli skolar magnesíum úr líkamanum og leggur álag á lifrina og fleiri líffæri ef margir bollar eru drukknir daglega. Þess vegna er gott að skipta kaffinu reglulegt út fyrir grænt te, sem býr yfir miklum bólgueyðandi eiginleikum.

10 – Gætið þess að viðhalda góðu vökvajafnvægi í líkamanum og drekkið að minnsta kosti tvo lítra af vatni á dag. Þeir sem eru viðkvæmir í nýrum geta soðið vatnið og kælt það áður en þeir neyta þess, því þá er það mildara fyrir nýrun.

11 – Notið olíur á réttan hátt. Ef olíur sem hafa lágt hitaþol eru notaðar til steikingar getur það leitt til þess að þær umbreytast í eitruð efni. Notið því ólífuolíu og hörfræsolíu í salatið og yfir kalda rétti og kókosolíu eða avókadóolíu til eldunar við hátt hitastig.

Mynd: Can Stock Photo / focalpoint

Heimildir m.a.: Medicalnewstoday.com 

image_print

Um höfund

Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
  • 582 Posts
  • 0 Comments
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
Deila áfram