DÁSAMLEG “HREIN SKÁL”!

DÁSAMLEG “HREIN SKÁL”!

Matarbloggarinn þessa vikuna er hún Björg Helen Andrésdóttir, en hún hefur oft sent inn uppskriftir. Við megum eiga von á að minnsta kosti einni á mánuði frá henni á næstunni.

“Skálar” eru vinsælar og sjálftsagt að útbúa þær heima, en ekki bara kaupa þær tilbúnar á veitingastöðum. Það er gott að geta nýtt sér afganga í skálina sína, en gefum Björg Helen orðið:

Mér finnst svo æðislegt að eiga í ísskápnum eitt og annað, sem ég get nýtt í að búa til svona dásamlega skál. Möguleikarnir eru endalausir þegar kemur að samsetningu og hægt að blanda  saman ýmsum hráefnum og gera úr því dásemdar máltíð. Við eldun og samsetningu á þessari skál notaði ég:

kjúklingaupplæri
kínóa
sætar kartöflur
agúrku
Lambhaga salatblöndu
salt
svartan pipar
eðal kjúklingakrydd
olíu

Notið þann hluta kjúklingsins sem ykkur finnst bestur.

Mér finnst upplærin best. Ég set þau í eldfast mót, krydda með Eðal kjúklingakryddi frá Pottagöldrum, salti og pipar og set síðan  inn í 180°C heitan ofn í ca 30 mín.

Það má líka skera kjúklingabita eins og til dæmsi bringur niður og steikja á pönnu.

Ég sýð gjarnan ríflega af kínóa þegar ég nota það með mat og krydda með himalajasalt og örlítið af cayenne pipar (má sleppa) út í vatnið, en það má auðvitað nota það krydd sem ykkur finnst gott.

Sætu kartöflurnar sker ég niður eins og franskar kartöflur, set í elfast mót og set ólífuolíu og saltyfir. Hræri aðeins í kartöflunum þannig að olían dreifist vel á þær allar.

Set mótið síðan inn í 190°C heitan ofn í um það bil 45 mínútur. Þegar bökunartíminn er svona hálfnaður er gott að taka fatið út og snúa kartöflunum í því, svo þær bakist jafnt eftir að fatið hefur aftur verið sett inn í ofninn.

Það má bæði raða matnum heitum beint úr ofninum eða nota kalda afganga í skálina, en þegar búið er að raða matnum í hana set ég eftirfarandi dressingu yfir. Hún er ein af mínum uppáhalds og gott að eiga nóg af henni tilbúinni í ísskápnum.

DRESSING sem er góð á allt

INNIHALDSEFNI:

2 dl góð extra virgin ólífuolía
½ – 1 dl vatn (má sleppa)
1 msk Dijon sinnep
1 heill hvítlaukur (þessir litlu kúlulaga)
3-4 cm engiferrót
sítróna
salt
Cayenne pipar (má sleppa)

Þegar ég útbý þessa dressingu finnst mér best að nota krukku með loki sem ég set allt út í og hristi svo dressinguna saman í henni.

Olían, vatnið og sinnepið fara fyrst í krukkuna.

Svo nota ég fínt rifjárn til að rífa niður hvítlaukinn og engiferinn. Ríf einnig börkinn af sítrónunni og kreisti síðan safa úr ½ sítrónu út í.

Set smá salt út í og Cayenne pipar (má sleppa) – hristi saman og dressingin er tilbúin.

Uppskrift og myndir: Björg Helen Andrésdóttir