Það er Dagur Jarðar í dag og ég verð alltaf dálítið sorgmædd á þessum degi, því mér finnst við almennt ekki fara nægilega vel með Jörðina, þótt hún sé eina búsvæðið sem við eigum. Enn sem fyrr fer lítið fyrir viðburðum tengdum þessum degi hér á landi, þótt umhverfisverndarsinnar víða um heim í rúmlega 190 löndum nýti hann til að vekja athygli á umhverfismálum, hver á sínu svæði.
Ýmsir stórviðburðir í umhverfismálum heims hafa tengst þessum degi frá því honum var fyrst komið á í Bandaríkjunum árið 1970. Nú síðast má nefna Parísarsamkomulagið svokallaða í loftslagsmálum, sem var undirritað þennan dag fyrir ári síðan, þótt núverandi forseti Bandaríkjanna neiti nú að standa við það.
SAGA DAGSINS
Þótt barátta fyrir ýmsum úrbótum í umhverfismálum hafi fyrst tengst 22. apríl í Bandaríkjunum teygðu samtökin sig þaðan út til alþjóðasamfélagsins árið 1990 og hafa í samstarfi við umhverfisverndarsamtök víða um heim, nýtt daginn til að vekja athygli á þeim mikilvæga málaflokki sem umhverfismálin eru.
Þrátt fyrir þá miklu vinnu sem unnin hefur verið, eru enn of margir sem telja að þeirra framlag til umhverfismála skipti ekki máli, sem er auðvitað rangt. Margt smátt gerir eitt stórt og því skiptir framlag hvers og eins svo gífurlega miklu máli, einkum og sér í lagi ef það eru margir sem leggja sitt af mörkum.
ÍSLAND GETUR VERIÐ Í FARARBRODDI
Ísland á svo sannarlega möguleika á að skapa sér sérstöðu í umhverfismálum á heimsvísu, með því að fylgja fordæmi sveitarfélaganna og Þjóðgarðsins á Snæfellsnesi, sem urðu fyrstu umhverfisvottuðu sveitarfélög á norðurhveli jarðar árið 2008. Þrátt fyrir áhuga sumra annarra sveitarfélaga, hafa engin tekið skrefið, þótt EarthCheck vottun fylgi tiltölulega lítill árlegur kostnaður. Sorglegast er þó að mínu mati að Reykjavík skuli ekki hafa gert það, því með því myndi hún skapa sér sérstöðu sem fyrsta umhverfisvottaða höfðuborg í heimi.
Í BOÐI EINHVERS, SÉRHVERS EÐA HVERS SEM ER
Með vottun sveitarfélaga myndi koma skipulag á aðgengi og nýtingu ýmissa áfangastaða í ferðaþjónustu. Eins og staðan er nú er átroðsla á landið okkar gengdarlaus og margir ferðamannastaðir eru löngu komnir yfir sín þolmörk. Til að bjóða upp á eitthvað nýtt og sérstakt er leitað út fyrir hefðbundnar slóðir og farið með fólk inn á viðkvæm svæði á árstímum þar sem Jörðin þarf á hvíld að halda.
Ráðamenn bregðast seint og illa við og þora ekki að setja nein mörk á þessa miklu umferð. Menn eru endalaust að deila um leiðir og taka því ekki ákvarðanir. Á meðan fá þeir félagar einhver, sérhver eða hvers sem er að stýra þessum mikilvæga málaflokki með frekar rýrum afköstum.
Ef þér fannst þessi grein áhugaverð, deildu henni þá endilega með öðrum.
Um höfund
- Guðrún Bergmann
- Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
Síðustu færslur
- Greinar7. desember, 2024MARS Á FERÐ AFTUR Á BAK
- Greinar28. nóvember, 2024LÉTT YFIR NÝJU TUNGLI Í BOGMANNI
- Greinar31. október, 2024MAGNAÐAR PLÁNETUAFSTÖÐUR Í NÓVEMBER
- Greinar21. október, 2024SÓLIN Í SPORÐDREKA