CHIA FRÆ ERU ÖFLUG FÆÐA

Þau eru lítil og dökkgrá á litin og það hendir marga, þegar þeir sjá fyrst poka með þeim, að vita ekkert hvað á að gera við þau. Utan á pokanum stendur væntanlega Chia seeds eða Chia fræ og þú ert að horfa á það sem margir telja vera eina af 10 helstu ofurfæðutegundum heims.

Þessi fræ eru tiltölulega ný á heilsufæðismarkaðnum, en þau koma af jurtinni Salvia hispanica, sem er salvíutegund og tilheyrir myntujurtaættinni. Fræin eru einstaklega rík af omega-3 fitusýrum, sem er flott fyrir þá sem eru grænmetisætur, því þær skortir oft í mataræði þeirra, en í þeim er einnig að finna omega-6 fitusýrur.

CHIA FRÆIN TÓLFFALDAST

Fræin eru líka prótínrík og með því að leggja fræin í bleyti þenjast þau út. Ein af sérstöðu chia fræjanna felst einmitt í því að þau geta dregið í sig allt að 12 sinnum þyngd sína af vökva. Þannig veita þau meiri fyllingu og draga úr svengdartilfinningu, auk þess sem þau eru betri fyrir meltinguna ef þau eru lögð í bleyti áður en þeirra er neytt.

Ég geri mér alltaf chiamauk fyrir nokkra daga með því að setja slatta af chia fræjum í glerkrukku (litla með smelluloki frá Ikea), fylla hana svo af köldu vatni og hræra í. Loka svo krukkunni og læt hana standa í ísskáp yfir nótt. Með því að nota alltaf hreina skeið þegar ég fæ mér skammt af maukinu út í bústið á morgnana, geymist maukið í krukkunni í allt að eina viku.


CHIA SKÚFFUKAKA eða SÆLGÆTISFERNINGAR

Það er frábært að eiga köku eða bita eins og þessa í ísskápnum til að bjóða gestum eða nota sem millimál. Ef þú átt ekki allt sem er í uppskriftinni, eru tillögur að öðru sem hægt er að nota innan sviga.

INNIHALDSEFNI:

½ bolli möndlusmjör frá Monki (eða jarðhnetusmjör)
½ bolli hunang
½ bolli sneiddar eða muldar möndlur
½ bolli rúsínur
½ bolli chia fræ (þurr)
½ bolli kókosflögur (ósættar)
½ bolli graskersfræ
½ bolli þurrkuð trönuber (eða bláber)
½ bolli glútenlausar hafraflögur frá Bunalun (eða sólblómafræ)
½ bolli hempfræ (eða sesamfræ)
örlítið af fínu himalajasalti

AÐFERÐ:

1 – Setjið möndlusmjör og hunang í pott og HITIÐ þar til það bráðnar saman. Hrærið vel í á meðan.

2 – Takið pottinn af hellunni og bættið ÖLLUM þurrefnunum út í möndlusmjörsblönduna. Hrærið vel saman.

3 – Klæðið ferkantað form að innan með bökunarpappír. Setjið blönduna á pappírinn og notið hendurnar til að þrýsta henni þétt í formið.

4 – Setjið formið í ísskápinn í nokkra klukkutíma svo blandan stífni. Skerið í ferninga og njótið heilsusamlegs sælgætis.


UPPLEYSANLEGAR OG ÓUPPLEYSANLEGAR TREFJAR

Bandaríski læknirinn Dr. Andrew Weil, sem telst vera einn af þekkari næringarfræðingum heims, segir að chia fræin séu frábær fyrir meltinguna, því þau eru lengi að fara í gegnum meltingarveginn og innihalda bæði uppleysanlegar og óuppleysanlegar trefjar.

Chia fræin eru rík af andoxunarefnum því í þeim er að finna kalk, bór, magnesíum, járn og sink, auk fjölda snefilefna sem hjálpa til við frásog annarra næringarefna. Chia fræin eru líka saðsöm og orkan úr þeim fer hægt út í líkamann, sem gerir það að verkum að ekki verða miklar sveiflur á blóðsykri við neyslu þeirra og því er meira jafnvægi á líkamsorkunni. Ekki skaðar svo að þau eru glútenlaus og henta því öllum þeim sem eru með glútenóþol.

MAYAR OG AZTEKAR NOTUÐU CHIA

Chia fræin voru hluti af hefðbundnu mataræði Maya og Azteka í Mið- og Suður-Ameríku á öldum áður, en þau vaxa í Mexíkó, Argentínu, Bólivíu, Ekvador og Gvatemala. Eftir innrás Spánverja í þessi lönd var ræktun bönnuð, meðal annars af trúarlegum ástæðum, þar sem þau voru hluti af seremóníum frumbyggjanna.

Chia fræ sem uxu villt voru hins vegar áfram notuð til matar. Upp úr 1990 hófst aftur skipulögð ræktun á chia fræjum og var það átak leitt af prófessor við háskólann í Arizona í Bandaríkjunum. Smátt og smátt fóru svo ýmsir heilsugúrúar að nota chia fræin og nú eru þau seld í flestum matvörumörkuðum í hinum vestræna heimi.

Heimildir: www.drweil.com  –  www.davidwolfe.comwww.ChiaFarms.com

Aðalmynd: Can Stock Photo / ESchweitzer

Aðrar myndir úr eigin myndabanka.

image_print
Deila áfram:

Um höfund

Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
  • 503 Posts
  • 0 Comments
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
error

Viltu deila þessari grein?