Fyrir tveimur vikum síðan skrifaði ég greinina ERTU MEÐ BÓLGUR OG LIÐVERKI?, sem rúmlega 14 þúsund manns hafa smellt á og fyrir viku síðan var það greinin FÆÐA SEM VELDUR EÐA DREGUR ÚR BÓLGUM, sem tæplega 4 þúsund manns hafa lesið. Í öðrum greinum hef ég fjallað um skaðleg og bólgumyndandi áhrif glútens svo og í bók minni HREINT Í MATINN, sem er í senn heilsu- og matreiðslubók, en sú umfjöllun hefur aðallega tengst áhrifum glútens á meltingarkerfið.
KORNHEILINN
Þar sem glútenóþol er eitt af mínum heilsufarsvandamálum reyni ég að læra sem mest um það og eftir að hafa hlustað á fyrirlestur með bandaríska taugasérfræðingnum David Perlmutter, náði ég mér í bók hans The Grain Brain. Hingað til hafa flestir tengt glútenóþol við þarma og ristil, en ekki heilsufarsvandamál tengd taugakerfinu. Í metsölubók sinni fjallar Perlmutter um rannsóknir sínar á áhrifum glútens á heilsu okkar almennt, ekki bara meltingarkerfið, heldur einnig taugakerfið og heilann. Margt mjög áhugavert kemur fram í bókinni, en Perlmutter heldur því fram að undirrót nánast allra heilsufarsvandamála og sjúkdóma séu bólgur og að mikið af þeim megi rekja til glútens í fæðunni.
GLÚTENÓÞOL EKKI BARA TENGT ÞÖRMUM
Perlmutter telur að óþol fólks gegn glúteni (hér er ekki átt við celiac disease, sem Perlmutter skilgreinir sem fágætt ofnæmi gegn glúteni sem leggst á smáþarma tiltölulegra fárra) sé ein mesta og vanviðurkenndasta heilsufarsógn mannkyns. Þegar fólk efast um réttmæti þessarar fullyrðingar, bendir hann á að nýjustu vísindi sýni að skaðleg áhrif glútens valdi ekki bara elliglöpum, heldur líka flogaveiki, höfuðverkjum, þunglyndi, geðklofa, ADHD og minnkandi kynhvöt. Alvarlegasta tengingin er þó sú sem talin er að sé á milli glútens og Alzheimer sjúkdómsins.
FÆÐAN GETUR BREYTT DNA-inu
Sem taugasérfræðingur hefur Perlmutter ítarlega rannsakað áhrif glútens á taugakerfið og þá ekki síst á heilann. Hann kallar glúten “þögula kímið”, sem getur valdið óafturkræfum skaða á heilsu okkar, án þess að við gerum okkur grein fyrir því. Jafnframt bendir hann á að nú liggi fyrir þekking á því að auk hitaeininga, fitu, próteina og snefilefna, sé fæðan öflugt utangenaefni (epigenetic) með mótandi áhrif – sem þýðir einfaldlega að hún getur breytt DNA-i okkar til betri eða verri vegar. Hann telur reyndar að vísindin hafi einungis snert toppinn af ísjakanum, hvað varðar tengingu á milli þessarar þekkingar og þeirra eyðileggjandi áhrif sem hveitineysla getur haft á líkamann.
ER TIL PILLA VIÐ ÖLLU?
Sú hugsun hefur á síðari árum verið ansi almenn að við getum hagað lífi okkar eins og okkur dettur í hug og að ef einhver heilsufarsvandamál komi upp, getum við snúið okkur til læknis, sem reddar málinu með nýjustu og bestu pillunum. Þessi hugsun er á vissan hátt sorgleg, annars vegar vegna þess að sé hún ríkjandi er fólk almennt ekki að taka ábyrgð á eigin heilsu og hins vegar vegna þess að ýmsum lyfjum fylgja hættulegar hliðarverkanir. Pearlmutter greinir meðal annars frá því að í nýlegri grein í Archives of Internal Medicine (bók hans kom fyrst úr árið 2013) komi fram að konur, sem voru settar á statin lyf eftir tíðahvörf til að lækka kólesteól þeirra, voru 48% líklegri að fá sykursýki en þær sem ekki voru settar á lyfin. Slíkt dæmi er alvarlegt ef haft er í huga að Perlmutter telur að með sykursýki tvöfaldist líkur á Alzheimer’s sjúkdómnum.
LÍFSSTÍLLINN SKIPTIR MÁLI
Heilsan ræðst að miklu leyti af fjórum þáttum í lífsstíl okkar, en þeir eru mataræði, vatnsdrykkja, hreyfing og svefn. Segja má að í hvert skipti sem við veljum að láta einhverja fæðu inn fyrir varir okkar séum við annað hvort að styrkja eða veikja heilsu okkar. Taugakerfi líkamans byggir á rafboðum og þau rafboð þurfa leiðni sem kemur með vatni. Til að tryggja að vatnið sé sem hreinast má sjóða það og kæla fyrir drykkju og eins má bæta það með himalajasaltvökva til að tryggja líkamanum nægileg steinefni. Hreyfingin þarf ekki að vera flóknari en dagleg gönguferð í 30-45 mínútur og svefninn – ja, honum þarf hjá flestum að breyta, því best er að fá sem mestan svefn fyrir miðnætti. Þannig fær líkaminn mesta hvíld.
Grunnur að bólguminni líkama, glútenlausum lífsstíl og meiri orku er lagður á námskeiðum mínum HREINT MATARÆÐI, en skráning er hafin á næsta námskeið sem hefst 18. apríl.
Ef þér fannst þessi grein áhugaverð, deildu henni á endilega með öðrum.
Mynd: CanStockPhoto/focalpoint
Heimildir: The Grain Brain eftir Dr. David Perlmutter
Um höfund
- Guðrún Bergmann
- Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
Síðustu færslur
- Greinar19. janúar, 2025FYRSTA NÝJA TUNGL ÁRSINS 2025
- Greinar16. janúar, 2025HVER STJÓRNAR ÞÍNUM LÍKAMA?
- Greinar13. janúar, 2025FULLT TUNGL Í DAG
- Greinar11. janúar, 2025YFIRLIT YFIR ÁRIÐ 2025