VALDA BÓLGUEYÐANDI LYF MEIRI SKAÐA EN GAGNI?

VALDA BÓLGUEYÐANDI LYF MEIRI SKAÐA EN GAGNI?

Þessi grein var fyrst birt í júlí árið 2016 – en er hér endurbirt. Tölurnar í henni eru hins vegar ekki uppfærðar, en þær segja svo sannarlega sína sögu þrátt fyrir það.

Ég fylgist reglulega með skrifum bandaríska náttúrulæknisins Dr. Michael Murray. Í nýlegri grein á vefsíðu hans kom fram að FDA eða Lyfjaeftirlit Bandaríkjanna, sé nú að fara fram á að bólgueyðandi lyf eins og Íbúprófen og Voltaren (NSAID eða non-aspirin nonsteroidal anti-inflammatory drugs) verði merkt með viðvörun um að notkun á þeim geti leitt til hjartaáfalla og heilablóðfalls.

FREKARI AUKAVERKANIR

Auk fyrrgreindra tveggja alvarlegra aukaverkana er vitað að lyf í þessum flokki geta valdið aukaverkunum eins og:

  • Almennri iðraólgu (ristilkrampa og meltingartruflunum).
  • Höfuðverkjum og svima.
  • Alvarlegri aukaverkun eins og magasári, auk þess sem þau eru talin hafa eyðileggjandi áhrif á þarmaveggina sem leiða til lekra þarma – sem svo aftur leiða til alls konar sjúkdóma eins og t.d. sjálfsónæmissjúkdóma.

NSAID lyfin, sem hér um ræðir eru meðal annars Ibuprofen (í USA selt sem Motrin og Advil), Aleve (naproxen sodium), Celebrex (celecoxib), Feldene (piroxicam) og Voltaren (diclofenac sodium), eru notuð í miklum mæli í Bandaríkjunum (og hér á land) til að meðhöndla liðbólgur, tíðakrampa, höfuðverki, kvef og flensueinkenni.

Í grein Dr. Michael Murray, kom fram að hvorki lyfjafyrirtækin né læknar sem lyfjunum ávísa, fjalli um hættulegar afleiðingar ofnotkunar eða langtímanotkunar á bólgueyðandi lyfjum. Einhverjar leiðbeiningar er auðvitað að finna í dvergaletri á límmiða sem settur er á glös eða í pakka, en því miður lesa þær fæstir.

SALAN Á ÍSLANDI SVIMANDI HÁ

Þegar ég las þetta lék mér forvitni á að vita hversu mikið af þessum lyfjum væri selt á Íslandi. Ég hafði samband við Lyfjaeftirlitið og þeir veittu mér góðfúslega upplýsingar um selt magn af bólugeyðandi lyfjum í þessum NSAID flokki árið 2015. Tölurnar eru að mínu mati svimandi háar, því þær miðast við skilgreinda dagskammta, þ.e. það magn sem fullorðinn ætti að taka á dag.

Árið 2015 voru hér á landi seldir 9.320.154 skilgreindir dagskammtar af bólgueyðandi lyfjum og gigtarlyfjum, sem ekki eru steralyf.

  • Af Diclofenacum (Diclomex, Diklofenak Mylan, Klófen-L, Modifenac, Voltaren, Vóstar-S) voru seldir 1.566.348 skilgreindir dagskammtar.
  • Af Ibuprofenum (Alvofen Express, Ibuxin, Íbúfen, Nurofen) voru seldir 5.031.883 skilgreindir dagskammtar.
  • Af Naproxenum (Alpoxen, Naproxen Mylan, Naproxen-E Mylan) voru seldir voru 1.075.560 skilgreindir dagskammtar.
  • Af Celecoxibum (Celebra, Celecoxib LYFIS, Celecoxib Actavis, Cloxabix) voru seldir 774.910 skilgreindir dgskammtar.
  • Af Etoricoxibum (Arcoxia) voru seldir 436.268 skilgreindir dagskammtar.
  • Af Glucosaminum (Glucomed) voru seldir 249.216 skilgreindir dagskammtar.
  • Af öðrum tegundum á listanum voru seldir færri en 100.000 skilgreindir dagskammtar.

SKAMMTÍMA ÁRANGUR – LANGTÍMA VANDAMÁL

Svo ég vísi aftur í grein Dr. Murray, segir hann að þrátt fyrir mikla notkun sé að koma í ljós að þessi lyf geti í mesta lagi skilað skammtíma árangri, en jafnframt aukið á langtíma vandamál.

Sem dæmi má rekja um 7.500 dauðsföll árlega í Bandaríkjunum beint til notkunar á lyfjum í þessum flokki (NSAID). Dr. Murray heldur því jafnframt fram að notkun á lyfjum í þessum flokki (NSAID) við t.d. liðbólgum flýti í raun fyrir eyðileggingu liðanna. Því sé ráðlegt að nota einungis lyf í þessum flokki (NSAID) í skamman tíma í einu.

Heimildir: Vefsíða Dr. Murray og Lyfjaeftirlitið

Ef þér fannst þessi grein áhugaverð deildu henni þá endilega með öðrum.

Skráðu þig á PÓSTLISTANN til að fá reglulega pósta með greinum um náttúrulegar leiðir til að styrkja heilsuna.