BÖKUÐ OSTAKAKA

Hér kemur enn ein frábær uppskrift frá 
Matarbloggara síðunnar, henni Björgu Helen.
Núna er hún með bakaða ostaköku og ég
get rétt ímyndað mér hversu bragðgóð
hún er, bara með því að lesa 
uppskriftina. Tilvalin til að
baka um páskana til að
eiga heima eða í sumó.


Kæri lesandi,

Þessi kaka er ein af mínum uppáhaldskökum. Bragðið og áferðin finnst mér svo góð. Hún verður aðeins „brennd“ að utan en svo mjúk að innan og hún er ekki of sæt. Það er líka mjög fljótlegt að hræra í kökuna og tekur ekki nema um klukkustund að baka hana. Gott er að gera hana kvöldinu áður en hún er borin fram.

Ég hvet ykkur eindregið til að prófa að baka hana.

Með dásamlegri matarkveðju
Björg Helen

 

BÖKUÐ OSTAKAKA
– Stundum kölluð “brennd ostakaka”

INNIHALDSEFNI:

500 gr Philadelphia rjómaostur
260 gr sykur
4 egg
240 ml rjómi
30 gr hveiti
½ til 1 tsk vanillu-paste

AÐFERÐ:

1 – Byrjið á því að hita ofninn upp í 220 gráður.
2 – Hrærið mjög vel saman ostinum og sykrinum.
3 – Bætið síðan eggjunum út í, einu í einu og hrærið vel í á milli.
4 – Síðan er rjómanum og vanillu-pasteinu bætt út í.
5 – Sigtið hveitið í lokin út í og hrærið vel í á meðan.
6 – Verið búin að setja bökunarpappír í smelluformið, ég set 2 blöð (ef þau eru fyrirfram skorin í pakkanum) þannig að þau hylji botninn og hliðarnar vel.
7 – Ég hef ekki smurt bökunarpappírinn með fitu en það er örugglega gott að spreyja fitu aðeins á hann.
8  – Þrýstið pappírnum vel niður í botninn og út í hliðarnar.
9 – Hellið deiginu í formið. Bakið í 50–60 mínútur.

Toppurinn á að vera dökkur og vel brúnn. Fylgist samt með í lokin að hann brenni ekki.

Látið kökuna kólna í 3-5 klukkutíma áður en hún er borin fram, eða geymið hana yfir nótt í kæli.

Myndir: Björg Helen Andrésdóttir

image_print

Um höfund

Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
  • 586 Posts
  • 0 Comments
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
Deila áfram