BESTA OLÍAN VIÐ BÓLGUM

Í síðustu grein minni LAXEROLÍA ER ALGJÖR UNDRAOLÍA, sem rúmlega 5.000 manns hafa lesið þegar þetta er skrifað, fjallaði ég um nokkra mikilvæga eiginleika laxerolíuna og hvernig við getum notað hana til að bæta líf okkar og heilsu.

Eins og með allt annað sem við notum til að bæta heilsu okkar, er ekki hægt að búast við töfralausnum og að allt breytist á einni nóttu. Með því að gera saman hlutinn aftur og aftur, má hins vegar ná ótrúlega góðum árangri.

MÍN REYNSLA

Ég lærði að batinn tekur tíma fyrir rúmum átta árum síðan. Þá var ég var mjög veik og greind með glútenóþol á háu stigi og miklar bólgur í ristli og þörmum. Ég hafði leitað til bandarísks náttúrulæknis, sem sendi mig heim með þær leiðbeiningar að ég ætti að setja laxerolíubakstur og hitapoka á kviðinn daglega næstu sex mánuði.

Var það skemmtilegt? Nei, ekki endilega, en það skilaði frábærum árangri og betri heilsu – og það var að mínu mati þess virði. Síðan þá hef ég alltaf gripið til laxerolíunnar ef einhverjar bólgur koma upp í líkamanum.

Ef ykkur finnst laxerolían of þykk eða lyktin af henni ekki góð, má blanda hana að hluta með ólífuolíu (extra virgin) og setja nokkra dropa af ilmkjarnaolíu út í blönduna.

BÓLGUR OG LIÐAGIGT

Laxerolía er góð gegn bólgum hvar sem er í líkamanum, hvort sem það er í ökkla- eða hnjáliðum, mjöðmum eða mjóbaki, kvið (ristli og þörmum), úlnliðum eða öxlum. Vegna bólguhamlandi áhrifa sinna dregur olían bæði úr bólgum og sársauka sem t.d. fylgir gigtarverkjum.

Ef um útlimi er að ræða er einfaldast að bera olíuna á aum og bólgin svæði og vefja þau svo með plastfilmu. Stundum þola aum bólgusvæði illa hita, svo þá borgar sig ekki að leggja hitapoka við þau. Olían ein og sér, einangruð undir plastfilmunni gengur inn í húðina og gerir sitt gagn, en ef sársaukamörk þola það, setja hitapoka yfir baksturinn.

HÆGÐAVANDAMÁL

Margir sem koma á HREINT MATARÆÐI námskeiðin mín eiga við hægðavandamál að stríða. Þá ráðlegg ég alltaf laxerolíubakstur, því hann dregur bæði úr bólgum í ristli og þörmum, losar um stíflur í útþöndum kvið og mýkir harðar hægðir, svo auðveldar sé að losna við þær.

Laxerolíubakstur á kvið virkar vel bæði fyrir börn og fullorðna og hann má gera svona:

1 – Hellið laxerolíu í bómullarstykki og leggið á kviðinn – eða berið laxerolíuna bara beint á kviðinn – og leggið svo tilklipptan plastpoka eða plastfilmu yfir. Plastið einangrar olíuna og gerir það að verkum að hún leitar inn í húðina.

2 – Setjið þunnt handklæði eða viskastykki yfir plastið og hitapokann ofan á það.

3 – Hafið baksturinn á kviðnum í minnst 30 mínútur. Endurtakið ferlið daglega í minnst einn mánuð.

BAKVERKIR

Hægt er að meðhöndla bakverki (bólgur), hvort sem er í mjóbaki eða ofar í bakinu eða í öxlum á sama hátt og aðrar bólgur með því að setja við bakið laxerolíubakstur.

Leggist á eða látið hitapoka liggja á bakinu, í minnst 30 mínútur í hvert skipti sem þetta er gert.

ÖR OG LITBLETTIR Á HÚÐ

Laxerolía er mjög rakagefandi og fitusýrur hennar ganga vel inn í húðina. Því er gott að bera hana á ör sára sem eru að gróa, en eins og með annað þarf að endurtaka ferlið daglega í nokkuð langan tíma til að sjá árangur.

Húðslit er oft fylgifiskur meðgöngu, þegar húðin á kviðnum tognar ótrúlega mikið á stuttum tíma. Með því að bera laxerolíu á kviðinn á meðgöngunni dregur úr líkum á húðsliti – og ef húðin slitnar eða er slitin dregur það úr örunum að bera laxerolíu á þau.

Laxerolía er góð til að hreinsa húðina og jafna litarhátt hennar. Húðlæknar erlendis mæla gjarnan með því að borin sé laxerolía á dökka bletti eða aðrar litabreytingar á húð, til að jafna litarháttinn. Það er vegna þess að laxerolía er stútfull af fitusýrum, einkum omega-3 fitusýrum. Þær veita húðinn raka um leið og þær örva vöxt á heilbrigðum vef og jafna lit húðarinnar.

NÁTTÚRULEGAR OLÍUR BESTAR

Laxerolían er unnin úr náttúrulegu hráefni, þ.e. Castor baununum og náttúruleg hráefni eru þau bestu sem við getum sett á húðina okkar. David Suzuki, þekktur náttúruverndarsinni minnir okkur á að eitt af hverjum átta af þeim 82.000 innihaldsefnum sem notuð eru við framleiðslu á húð- og hárvörum og snyrtivörum almennt eru “iðnaðarefni”, þar á meðal efni sem geta valdið krabbameinum, meindýraeitur, eiturefni sem hafa áhrif á æxlunarfæri mannslíkamans og sem hafa raskandi áhrif á hormónakerfi líkamans.

Með því að nota laxerolíu eða aðrar hreinar olíur úr náttúrunni fyrir húð okkar og hár erum við að vernda eigin heilsu og líkama.

Heimildir: Vefsíða David Suzuki – og Stylecraze

Mynd: Can Stock Photo/pankajstock123

Neytendaupplýsingar: Laxerolíuna frá NOW er meðal annars að finna í Nettó og í Fræinu hjá Fjarðarkaupum

 

image_print
Deila áfram:

Um höfund

Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
  • 551 Posts
  • 0 Comments
Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
error

Viltu deila þessari grein?