AMMA HEFÐI KALLAÐ ÞETTA KLATTA
Ég á góðar minningar úr barnæsku frá heimsóknum til Guðrúnar ömmu minnar. Hún var ólöt við að skella saman í klatta eða pönsur, sem þá gjarnan voru úðaðar með sykri og rennt niður með mjólkurglasi. Nú er hvorki mjólkinni né sykrinum til að dreifa í mataræði mínu, en klattaminningin lifir samt enn.
Áherslur í eldamennsku hafa svo sannarlega breyst og nú er gjarnan talað um gömlu klattana sem amerískar pönnukökur, jafnvel þótt þær séu ekki bakaðar í sömu stærð og þeir í Ameríkunni gera.
Mér finnst frábært að skella saman í ameríska klatta (hef ákveðið að halda í bæði klattana og það ameríska) annað slagið um helgar og breyta þannig aðeins út frá morgunmatnum, sem almennt er annað hvort grænn djús eða ávaxta- og próteinhristingur.
Uppskriftir að glúten- og mjólkurlausum amerísku klöttum þróast og breytast eftir því hvaða mjöl ég á til hverju sinni og hvað það er sem mig langar að prófa að bæta í deigið. Hér er samt ágætis grunnur að til að vinna með:
- 1 bolli rísmjöli frá Ma Vie Sans Gluten
- 1 bolli Quiona mjöl frá Nature Crops
- 1 tsk matarsódi
- 2 tsk vínsteinslyftiduft
- fínt himalajasalt eftir smekk
- 2 tsk Ceylon-kanill
- 2 tsk vanilludropar frá Ellyndale
- 2 vel þroskaðir bananar –eða – 2 egg fyrir þá sem þola þau
- 2 tsk Husk flögur frá NOW – blandaðar í 1 dl heitt vatn
- 1½ msk ólífuolía
- 1 msk agave síróp eða akasíuhunang
- 1½–2 bollar sykurlaus Isola-rísmjólk – blandað saman við smátt og smátt svo deigið verði ekki of þunnt
Svo má bæta ýmsu í þennan grunn eins og til dæmis;
- 50 g gróft söxuðum valhnetukjörnum
- 2–3 msk af kakónibbum
- 1-2 msk af soðnum köldum hrísgrjónum (gæti þurft að bæta meiri vökva þá í deigið)
- í stað kanils má setja krydd eins og múskat
AÐFERÐ:
- Blandið öllum þurrefnunum saman í hrærivélarskál og hrærið saman stutta stund.
- Setjið banana og allan vökva í blandarann og blandið vel saman.
- Hellið vökvanum varlega út í þurrefnin og hrærið deigið vel saman á meðalhraða.
- Ef valhnetubitar og kakónibbur fá að fljóta með, blandið þeim þá varlega út í deigið með sleikju.
- Gott er að láta deigið standa aðeins áður en bakað er, jafnvel yfir nótt. Sé það gert þarf stundum að bæta meiri rísmjólk út í um leið og það er hrært upp fyrir bakstur.
- Steikið amerísku klattana á meðalheitri pönnu þar til það myndast loftbólur á þeim. Snúið þeim þá við og steikið hinum megin – eða fjárfestið í Crep’Party-rafmagnshellunni hjá Ormsson, þar sem allir við borðið geta bakað sína amerísku klatta sjálfir.
- Hugmynd! Amerísku klattarnir eru dásamlegir með kókosolíu og sykurlausu sultunni frá St. Dalfour eða bláberjum. Einnig má setja á þá frjóduft (bee pollen) og örlítið af dökku agavesírópi – sem er æðislegt saman.
Ef þér fannst þessi uppskrift spennandi, deildu henni þá endilega með öðrum ☺
Svo má alltaf skrá sig á PÓSTLISTANN minn en þá færðu greinar, tilboð og upplýsingar um námskeið og fyrirlestra sent til þín.
Um höfund
- Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
Síðustu færslur
- Greinar15/09/2024FULLT OFURTUNGL OG TUNGLMYRKVI
- Greinar02/09/2024NÝTT TUNGL Í MEYJU 03.09.24
- Greinar23/08/2024LÍKAMINN GEYMIR ALLT
- Greinar19/08/2024FULLT TUNGL Í VATNSBERA 19.08.24