Ég hef oft í ræðu og riti líkt líkamanum við bíl, sem sál okkar eða andi ekur í gegnum lífið. Þegar við deyjum verður bíllinn eftir, en andinn hverfur á annað tilverustig. Um þennan bíl verðum við hugsa vel til að hann haldist í góðu standi eins lengi og við erum á lífi. Því miður fylgir okkur ekki handbók við fæðingu og við þurfum ekki að mæta með bílinn okkar í 15 þúsund km skoðun til að viðhalda ábyrgðinni á honum.
Ábyrgðin hvílir algerlega á okkur sjálfum, en þá ábyrgð höfum við flest verið treg til að viðurkenna, hvað þá axla. Ég hef oft velt því fyrir mér hvort í okkur öllum sé einhvað sjálfseyðingarforrit sem geri það að verkum að við leggjum ýmislegt á líkama okkar sem við vitum að er ekki gott fyrir hann.
HLUSTUM Á LÍKAMANN
En hvernig tökum við ábyrgð á líkama okkar og vitum hvort eitthvað sé að? Ég segi gjarnan að við heyrum það með því að hlusta, því á vissan hátt byrjar líkami okkar að hljóma öðruvísi þegar eitthvað er að honum, líkt og vélarhljóð bíla breytist. Því miður getum við ekki rifið allt í sundur til að finna bilunina, né heldur erum við útbúin með rennilás til að renna niður að framan og kíkja inn.
Við verðum því að læra á táknmál líkamans, en merkin sem hann gefur frá sér eru oft í formi verkja og vandamála. Ef við viljum ekki að biluninni verði alvarleg, þurfum við að taka mark á þessum merkjum fljótlega eftir að þeirra verður vart.
Oft eru þetta merki sem við sinnum lítið eins og höfuðverkir, kinnholusýkingar, ristilkrampi eða bólgur í liðum. Margir grípa þá til verkja- eða sýklalyfja, engjast lengi af ristilvandamálum (það gerði ég þegar ég var yngri, enda ekki með sömu þekkingu og í dag), en tengja þau sjaldan við mataræði, streituálag eða annað í lífsstílnum, þótt þar liggi í mörgum tilvikum skýringin.
LÍKAMAR OKKAR ERU FLÓKNIR
Líkamar okkar eru ótrúlega flóknir og það er sífellt að koma í ljós með auknum rannsóknum að mun fleiri utanaðkomandi efni hafa áhrif á heilsu okkar, meltingu og næringarupptöku en okkur grunar.
Ég er stöðugt að pæla í því á hvaða hátt sé hægt að stuðla að og viðhalda betra heilsu. Til að finna svör les ég greinar og bækur framsýnna lækna og fræðimanna, horfi á fyrirlestra og soga í mig þekkingu þeirra. Í þessum pælingum er margt sem kemur á óvart, einkum rannsóknir síðustu ára, sem sýna meðal annars að að fæðan getur haft ýmis konar mótandi utanfrumuáhrif (epigenetics) á starfsemi líkamans og breytt því hvernig skilaboð flytjast um hann.
HEILDRÆNAR LÆKNINGAR
Í Bandaríkunum hafa heildrænar lækningar (functional medicine) rutt sér mjög til rúms á síðari árum. Hér á landi eru það helst grasalæknar og náttúrulæknar sem bjóða upp á slíka þjónustu, svo og einstaka heimilislæknar sem sinna sjúklingum sínum á þennan máta.
Heildrænar lækningar líkjast um margt kínverskri læknisfræði, þar sem allir þættir líkamsstarfsseminnar eru metnir og næring, hvíld, steituálag og ýmislegt fleira skoðað, áður en lagt er mat á hvað þarf að gera til að ná bata. Heildrænar lækningaaðferðir byggjast á samspili sjúklings og þess sem ráðgjöfina veitir, með það að markmiði að sjúklingurinn nái bata með einstaklingsbundnum breytingum á lífsstíl sínum.
LYF GETA VIRKAÐ HVORT GEGN ÖÐRU
Hefðbundin vestræn læknisfræði byggist hins vegar mikið á lyfjameðferðum. Lyfjum er ávísað til að slá á einkennin, oft án þess að leitað sé orsaka sjúkdómsins. Lyfjafyrirtæki hafa einnig mikil áhrif á kennsluefni í læknisfræði og auglýsa beint til neytandans hér á landi, þau lyf sem ekki eru lyfseðilsskyld. Með slíkum auglýsingum myndast sú ímynd að til sé pilla við öllu. Þar sem svo margir leita skyndilausna grípur fólk í þá ímynd, án þess að gera sér grein fyrir aukaverkunum.
Ásamt aukaverkunum, er oft verið að ávísa lyfjum sem virka hvort gegn öðru eða eru í raun ekki réttu lyfin fyrir viðkomandi. Nýleg rannsókn sem birt var í The British Medical Journal sýndi að röng lyfjanotkun eða samspil lyfja sem virkuðu hvort gegn öðru, væri þriðja algengasta dánarorsök í Bandaríkjunum.
LÍFSSTÍLL OG HEILSUFAR
Almenn meðvitund um þau áhrif sem lífsstíll okkar hefur á heilsufar og hættu á sjúkdómum hefur aukist mjög að undanförnu. Rannsóknum hefur í æ ríkara mæli verið beint að meltingunni og þeim áhrifum sem lélegt ástand þarma og þarmaflórunnar getur haft á heilsufar okkar, enda talað um að um 90% heilsufarsvandamála okkar megi rekja til ójafnvægis í gerlaflóru þarmanna.
EKKI TÖFF – EN SKILAR ÁRANGRI
Með sanni má því segja að enginn geti passað betur upp á heilsu okkar en við sjálf. Flest vitum við hvað þarf að gera til að viðhalda góðri heilsu, en það gildir hins vegar öðru máli hvort við förum eftir því eða ekki. Einfaldur lífsstíll, þar sem sömu hlutirnir eru endurteknir aftur og aftur, þ.e. hollt mataræði, hreyfing, hvíld og slökun, þykir ekki sérlega töff.
Blaðamaður bað mig eitt sinn að svara spurningu um það hvað ég gerði til að viðhalda góðri heilsu. Hann bað mig jafnframt um að segja ekki “mataræði og hreyfing”, því það væri svo klisjukennt. Sú einfalda staðreynd gleymist oft að góðir hlutir, sem gerðir eru aftur og aftur, leiða til frábærs árangurs.
Þess vegna æfir til dæmis afreksfólk aftur og aftur sömu æfingarnar, hleypur aftur og aftur sömu vegalengdina og sparkar bolta dag eftir dag, til að bæta sig og styrkja og verða besta útgáfan af sjálfum sér.
Guðrún hefur í rúm þrjú ár haldið HREINT MATARÆÐI námskeið, sem rúmlega tólf hundruð manns hafa sótt. Þau byggjast á 3ja vikna hreinsikúr, sem er góður grunnur að bættum lífsstíl og betri lífsgæðum.
Mynd: CanStockPhoto/tomwang
Um höfund
- Guðrún Bergmann
- Guðrún Bergmann hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða. Sjá nánar
Síðustu færslur
- Greinar7. desember, 2024MARS Á FERÐ AFTUR Á BAK
- Greinar28. nóvember, 2024LÉTT YFIR NÝJU TUNGLI Í BOGMANNI
- Greinar31. október, 2024MAGNAÐAR PLÁNETUAFSTÖÐUR Í NÓVEMBER
- Greinar21. október, 2024SÓLIN Í SPORÐDREKA